Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
29.1.2007 | 22:17
Ágrip af ferðasögu flakkara
Jæja, heil og sæl.
Komin heim eftir 10 daga þvæling; fyrst staðlota í Kennó 19. og 20. jan, fór síðan á Flughótel Keflavík á sunnudagskvöldið ásamt einum samkennara mínum sem fór með mér út. Flugum til Krakow á mánudagsmorguninn 22. jan með millilendingu í Osló og þar tóku þær mæðgurnar Begga og Helga á móti okkur. Færði Beggu gamlan Mogga, og varð hún voða glöð með það. Eftir kaffisopa (nooott) á Gardemoen héldum við síðan áfram til Krakow, vorum reyndar næstum búnar að missa af flugvélinni, heyrðum eitthvað brak í hátalara og svo heyrðist mér sagt "Olafsdottir" og við rukum af stað að okkar hliði, þá voru allir komnir út í rútu sem flutti okkur út í vél! Þá hafði ekkert verið kallað út í vélina, bara birtar upplýsingar á skjá og við sveitakonurnar sátum bara í rólegheitum og biðum eftir að það væri kallað í okkur! Okkur fannst þetta frekar fyndið..........eftirá
!
Annars var ferðin öll heljarinnar ævintýri. Þessi "fundur" sem átti að taka vikuna tók samtals um átta klukkustundir, megnið af vikunni var frjáls tími sem fór mest í að ráfa um götur Rybnik og skoða í búðir, en það var ekki mikið meira að sjá þar. Síðustu nóttina vorum við í Krakow og skönnuðum eitt risamoll, núna veit ég hvað "shop till you drop" er!
Helsta skemmtunin var að eiga stefnumót við mennina okkar framan við vefmyndavél sem staðsett var á torginu framan við hótelið okkar: www.rybnik.pl/index.php?id=485
Rosalega líst mér annars vel á að halda uppá 110 ára afmæli Gamlans okkar helgina 27.-29. júlí! Ef að líkum lætur verður þetta tónleikahelgi og heilmargt að gerast á Borgarfirði!
Afmælisbörn janúarmánaðar fá góðar afmæliskveðjur frá mér
Kveðja frá Guðnýju.
Myndin var tekin af okkur Grétu ferðafélaga framan við risavaxið jólatré á torginu í Krakow.
26.1.2007 | 17:37
Botninn er suður í Borgarfirði
Óska ykkur góðrar helgar.
Við hér í vinnunni erum í því að mæla letina upp í hver annarri - Það verður pöntuð pizza í kvöldmatinn hjá mér. Samt langar mig í eitthvað annað. Það er bara svona þegar letin er að drepa mann - þá er pizza.
Kv. Fjóla
23.1.2007 | 16:12
Ó mæ good...
Búin að gleyma fullt af afmælum. Ása og Siggi, til hamingju með daginn í gær. Hverjum fleirum hef ég gleymt. Hamingjuóskir til þeirra líka.
Fjóla galtóma....
22.1.2007 | 11:16
Þorri mættur
Sæl öll
Við systur allar héldum saman þorrablót á föstudagskvöldið. Litla kom að norðan ásamt eigimanninum (börnum og einu auka) í tilefni af því að hann var að útskrifast úr véliðnfræði. Pungarnir voru fínir, að ég tali nú ekki um allt hitt góðgætið. Meira að segja hákarlinn var meiriháttar góður þó að hann væri ekki frá Borgarfirði heldur úr Fiskibænum Mikla.
Eitthvað barst í tal - að það væri búið að berast í tal - að það þyrfti að berast í tal - að Gamli Jörfi yrði 110 ára.....
Kveðja Fjóla
9.1.2007 | 14:57
Áramótaheit
Var áramótaheitið hjá Jörfaliðinu nokkuð að leggja bloggsíðuna niður? Nei, ég bara spyr.....
Ég hét sjálfri mér því að reyna að auka obbolítið hreyfingu hjá konunni, fara úr þessari kyrrstöðu sem ég hef verið í allan vetur með tilheyrandi söfnun á fituforða og skella mér í leikfimi, en konan er í sögulegu hámarki hvað forðann snertir. Nú, þar sem ég stend yfirleitt við það sem ég heiti einhverjum, dreif ég mig í leikfimi í gær og nú er ég smám saman að finna fyrir nánast hverjum vöðva líkamans, svei mér þá!!
En, ég SKAL halda áfram...............
Kv. Guðný
3.1.2007 | 16:06
Minningar jólanna.
Ég vil minna ykkur á þáttinn Minningar jólanna, sem var á dagskrá RUV rás 1 á aðfangadag, í umsjón Ágústar Ólafssonar.
Hægt er að nálgast hann hér:
http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4337423
Þar er m.a. minningarbrot ungrar stúlku í þorpi á Austurlandi árið 1950. Stúlkan er 10 ára þetta eftirminnilega aðfangadagskvöld. Hvaða unga stúlka er þetta og hvert er nú þorpið ?
Kv./ÓA
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.1.2007 | 04:16
Gleðilegt nýár Jörfalið...
...og takk fyrir gamla árið! Vonandi ber nýja árið í skauti sér margar og góðar samverustundir okkar Jörfaliðs, jafnt í Gamla Jörfa sem annars staðar.
Kveðja, Guðný.
-Myndir frá áramótunum á Dalvík í albúmi!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 19:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.12.2006 | 18:30
Helga amma í Jörfa á afmæli í dag.
29. desember er afmælisdagur Helgu mömmu, ömmu og langömmu okkar í Jörfa. Í dag hefði hún orðið 87 ára og ég minnist hennar með mikilli virðingu og þakklæti. Ég hef reynt í gegn um árin að hafa hana sem fyrirmynd í mörgu því sem ég hef tekið mér fyrir hendur en það hefur mér reynst erfitt þar sem ég hef ekki þann sterka persónuleika til að bera sem hún hafði. Gleði, umburðalyndi, ástúð, vinnusemi, umhyggju, trygglyndi og endalausa þolinmæði hef ég því því miður ekki til að bera, nema að litlu leiti, en þetta hafði hún allt og gaf ríkulega af sér allar stundir svo um var talað. Þetta kann að þykja væmið en allir sem til hennar ömmu minnar þekktu vita að frekar er úr dregið en í lagt.
Ég lít á það sem forréttindi að hafa fengið að alast upp hjá Helgu í Jörfa og tel mig ríkari fyrir vikið. Ég vil taka orð Ingu frænku (eldri) mér í munn þegar hún var að rifja upp hvað amma Helga var ung þegar hún dó, og hafa verið notuð áður á þessum vettvangi: "Það var nú meiri óþarfinn...."
Blessuð sé minning hennar.
Óli Ara.
28.12.2006 | 17:03
Til hamingju Magga með afmælið í gær.
Við óskum henni Möggu til hamingju með afmælið í gær. Styttist óðfluga í fjörutíu árin.
Akraselir.
24.12.2006 | 14:06
Gleðileg jól, elskurnar
Jæja, þá er þetta allt að bresta á. Skötuveislan hjá Möggu í fyrrakvöld klikkaði ekki frekar en fyrri daginn og síldin hans Sigga var hið mesta hnossgæti í ár. Sex tegundir af síld í boði, allt heimalagað og borið fram með rúgbrauði sem húsfrúin í Þrastarhóli bakaði. Nú er rjúpnalyktin um allt hús, beinin steikt og komin í pott og verið að brugga sósuseyð. Framundan skreppiferð í kirkjugarðinn, þar er góður minnisvarði, "minning um líf" og mér finnst alltaf gott að fara með kerti þangað á aðfangadag og hugsa aðeins til mömmu og pabba í leiðinni.
Á myndinni er Hjörvar Óli að skreyta jólatréð, svarfdælska furu, ljómandi falleg í ár sem endranær.
Við óskum ykkur öllum gleðilegra og endurnærandi jóla, vonandi fer jólamaturinn vel í magann og þið hafið það sem allra best. Vonandi verður nýtt ár gott bloggár, það er gaman að sjá hvað margir eru farnir að "láta sjá sig" á síðunni okkar.
Góðar kveðjur frá Guðnýju, Sigga, Hjörvari Óla, Óskari, Óttari og jólakettinum Katli
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)