21.3.2010 | 17:39
Suðurferð
Við skelltum okkur suður í Borgarfjörð í gær og vorum viðstödd útför meistarans Jóhannesar frá Ánabrekku, blessuð sé minning hans. Eins og svo oft í svona samkomum hittum við marga góða menn og konur, Brekkulið eins og það lagði sig og að auki Ingu syss og Jónas, Fjólu og Ólara og var það að sjálfsögðu ákaflega gaman. Ekki spillti fyrir að við kíktum í heimsókn til Ingu móðursystur, hittum þar á nöfnuna og dvöldum góða stund við spjall. Gistum í Litlu-Brekku eftir notalega kvöldstund með húsráðendum og Ánabrekkufólki, ég eignaðist nýja vinkonu sem heitir Auður Vilhelmína.
Rákum inn nefið á Kvíunum í morgun áður en við fórum á Akranes, þar sem ég hafði boðið okkur hjónum, Ólara, Sigrúnu, Ými, Óskar og Óttari í morgunkaffi til Fjólu () , en tvíburar höfðu dvalið í Borg óttans við upptökur og tónleika í nokkra daga. Viðar stóð sig eins og hetja og smurði ofan í okkur og Fjóla hitaði fullan pott af súkkulaði - með eindæmum vel heppnað boð, takk fyrir okkur
!!
Semsagt, komin aftur heim á Dalvíkina draumabláu, afar sæl með ferðina.
Guðný syss.
11.3.2010 | 17:34
Kæra Jörfalið
Mig langar til að vita hvort þið viljið lofa mér og mínum að ráðskast með Gamla-Jörfa helgian 9.-11. júlí í sumar. En að sjálfsögðu verður ekki læst hús.
Kv. Gunna.
27.2.2010 | 20:42
Hittningsnefnd.
Sæl og blessuð.
Hvernig er staðan hjá nefndinni, Steina ðifiháð, Jóa og Möggu ? Er komin einhver dagsetning ? Það væri mjög gott að fá dagsetningu svo ég geti skipulagt fríið mitt.
Kveðja,
Helga í Norge.
P.s.
Ég er ekki að lofa því að koma, en líkurnar eru ykkur í hag.
24.2.2010 | 21:24
Kunnuglegur....
Var að skoða ,,Séð og heyrt" á kaffistofunni og sá allt í einu mjög svo kunnuglegt andlit.
Gat bara ekki stillt mig um að fá myndina úr Hafkalks-auglýsingunni lánaða. Takk fyrir lánið, Grétar frændi. Bestu kveðjur, Fjóla Ásg.
18.2.2010 | 00:03
Kvíaholtskösin á ferð
Sæl öll.
Við fjölskyldan erum á leið í langþráð frí í Gamla Jörfa í næstu viku og verðum eitthvað fram yfir þá helgina. Hamar og sög verða með í för sem og ævisaga Snorra Sturlusonar og fjögur prjónaverkefni. Til stendur að lesa ógurlega, prjóna geypilega, eta mikinn mat, klára að klæða á loftinu og ganga bjórvöðva húsbóndans á brott, í það minnsta að minnka hann. Verða einhverjir aðrir á ferðinni um þetta leyti?
Kveðja, Hjörleifur.
P.s. ,,Goggi. Hentirðu útigrillinu?" Held að okkar sé inni í fjósi.
P.p.s. Hver ætlar svo að mála?
8.2.2010 | 10:10
Jólasveinninn og Ísbjörninn...
Gauja er sextug í dag. Innilega til hamingju með daginn
Fjölskyldan eyddi helginni í "sumarbústað" í Vaglaskógi í dásamlega fallegu vetrarveðri og fékk marga góða gesti.. suma kannski skrautlegri en aðra..
En svo var etið og haft það gott saman, eitt merkilegt atvik var við borðhaldið þegar Lára Hlín var með lausa tönn og Guðný ömmusystir bauðst til að taka tönnina...
Dásamleg helgi að baki, takk kærlega fyrir okkur
Dagný, Óli Helgi og synir
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.2.2010 | 15:26
Guja systir sextug!
Hún Guðríður systir er sextug í dag
að sjá það á henni er ei nokkurt lag.
Hún vild´ekki partý en vildi það samt
:,:því víst er hún hógvær sem henni er tamt:,:
Maðurinn hennar er mannanna prýði
makalaust góður hann Rögnvaldur Skíði.
Samræmd í kórnum þau syngja við raust
:,:og spila svo golfið uns komið er haust:,:
Börnin sín bæði þau Lilju og Óla
bera á höndum sér, aldrei þau góla.
Svavar og Dagný þar sigla með þeim
:,:og síðarmeir ungarnir komu í heim:,:
Palli og Lára og pilturinn Skíði
pottormar litlir og ömmunnar prýði,
Emil og Gauja eru´örverpin minnst,
:,:yndisleg kríli, já það okkur finnst:,:
Kærasta systir, nú komið er nóg
kveðskapi lokið er hér úti í mó.
Þetta að lokum þér segja ég vil:
:,:Þakka þér fyrir að vera til! :,:
Guðný syss.
3.2.2010 | 20:30
Smá þorrablót
Þráin eftir þorramatnum var orðin svo mögnuð meðal okkar "yngstu" á laugardaginn var að það var slegið upp þorrablóti í Ásveginum. Við byrjuðum á því að dýfa okkur í heita pottinn á pallinum og dást að stjörnubjörtum himni áður en við settumst að veisluborði. Eftir hæfilega reykta, herta, súrsaða og vel kæsta máltíð var spilið Heilaspuni vígt, en það kom hér í hús um jólin. Við skemmtum okkur konunglega yfir þessu magnaða spili lengi nætur, þá skriðu Gústi, Magga og Bjarki í ból í Sunnubrautinni, komu heim rétt á undan húsráðendunum Guju og Ragga sem voru á alvöru þorrablóti í Svarfaðardalnum.
Nokkrar myndir í albúmi!
Kv. Guðný.
28.1.2010 | 11:16
Ég og ,,Gústi"
Góðan dag.
Best að skrifa nokkar línur hér, þar sem við erum ein heima ég og ,,Gústi" - sem heitir að sjálfsögðu Ágúst Óðinn og amman kallar hann það nú oftast. Málið er bara að hann er algjör ,,Gústi". Hann er lasinn angakarlinn, búinn að fá margar pestir, mörgum sinnum í vetur. Alltaf hlær hann að öllu saman og vesenið er ekkert. Nú hljóta pestir að fara, vor í lofti hækkandi sól.
Katrín Fjóla, stóra systir, fór í leikskólann, þó að henni litist betur á að vera í fríi. Féllst svo á að fara í pilsi og bleikum legghlífum. Bleikt er flottast. Eiginlega eini nothæfi liturinn, að hennar mati.
Svo er það hann Viðar Jarl Bergþórsson. Hann er þriggja mánaða í dag. Hann er algjör Viðar, farinn að fá graut á kvöldin og engar refjar. Dafnar vel og er dásamlegt barn (eins og öll börn....). Best að hafa það með svo þið haldið ekki að ég rifna af monti yfir þessum barnabörnum mínum. Ég er kannski í áhættuhóp.....en vona að ég rifni ekki.
Kærar kveðjur, Fjóla Ásg
22.1.2010 | 09:10
Gleðilegan bóndadag.
Kæru ,,pungar" nær og fjær.
Vona að þið hafið það gott á bóndadaginn.
Bestu kveðjur, Fjóla Ásg.