7.5.2009 | 11:43
Úr Jörfaliðinu í landsliðið!
Sæl öll!
Óli Gústa hefur verið valinn í Landslið matreiðslumanna! Þetta var ákveðið fyrir nokkru síðan og nú fékk ég leyfi hjá honum til að kjafta frá! Ég veit ekki hversu margir nýútskrifaðir sveinar hafa komist í íslenska landsliðið í matreiðslu, hann er allavega sá eini í liðinu í dag!
Óli tók þátt í forkeppni að Matreislumanni ársins, en komst ekki í 5 manna úrslit. Segir sig hafa vantað örfá stig og var næstur til að komast inn! 16 kokkar tóku þátt í undankeppninni.
En hann verður engu að síður að keppa um helgina! Hann keppir fyrir Austurland í landshlutakeppninni Íslenskt eldhús í Laugardalshöllinni á sunnudag. Endilega að mæta þar, allir sem tækifæri hafa til. Við Magga ætlum að bruna suður!
Bestu kveðjur, Gústi & co.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 19:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
27.4.2009 | 22:11
Unglegur er hann!!
Rögnvaldur Skíði er sextugur í dag. Ég og mín fjölskylda óskum honum hjartanlega til hamingju með þennan áfanga í lífinu, það eru margir sem vildu óska þess að vera jafn unglegir og hressir og hann er!
Afmælisbarnið gerði heiðarlega tilraun til þess að stinga af og láta lítið fyrir sér fara um helgina, leigði sér bústað á Illugastöðum og ætlaði að vera þar í miklum rólegheitum með eiginkonu, börnum og barnabörnum. En honum varð nú ekki kápan úr því klæðinu, því eiginkonan lak út fréttunum og skelmingssystkinin Guðný og Gústi ásamt mökum laumuðust í humátt, leigðu sér líka bústað og gerðu innrás á föstudagskvöldið og kyrjuðu brag til afmælisbarnsins við mikinn fögnuð viðstaddra
Til hamingju með daginn Raggi minn!!
Eins og sést á meðfylgjandi mynd, fékk afmælisbarnið góða aðstoð unganna sinna við að taka upp pakkana og lesa á kortin!
25.4.2009 | 11:30
Kveðja úr Gamlanum
Var að fá eftirfarandi fréttir úr Gamla:
Þvottavélin er komin á sinn stað (gamla út í skúr til vara), örbylgjuofn kominn uppá ísskápinn og ný glerstytta í stofuna (takk Óli Ara. og Helga Ara) Það er komin klæðning á framloftið og þetta er allt bara dásemdin ein, fólkið sem er á staðnum ljómar af ánægju og gleði þó það snýti bæði rauðu og svörtu (þetta sagði pabbi ) Síðustu fréttir af gólfdúknum voru þær að hann átti að koma í Egilsstaði í dag, fréttum meira af því síðar.
Hér með er þessu komið til skila frá Gunnu, Geira og Hjörleifi, mér skilst að þeim veitti ekki af því að fara að koma sér í sturtuna því að það var víst eitt og annað sem kom úr loftinu....... en eins og áður sagði þá ljóma þau af ánægu yfir þessu öllu og við náttúrulega líka. Það verður gaman að koma í Gamlann næst!
Kv. fréttamaðurinn Magga.
17.4.2009 | 00:45
Elsku fólk..
13.4.2009 | 15:04
AfmælisDagur
10.4.2009 | 09:38
Hvernig verða páskarnir hjá þér ????
5.4.2009 | 23:26
Afmælisdrengur í Ásvegi 1
Hjörvar Óli, yngsti sonur Guðnýjar og Sigga, yngsta barnabarn Óla Gústa og Helgu er 15 ára í dag. Ég legg ekki meira á ykkur.
Það er hreint með ólíkindum hvað tíminn æðir áfram. Maður er varla vaknaður á mánudagsmorgni þegar kominn er föstudagur. En samt erum við alltaf jafn ung og falleg, það eru bara börnin sem eldast.....eða hvað?
Hjörvar Óli fagnaði tímamótunum með tveimur bestu vinum sínum og bauð þeim á Greifann og í bíó í gærkvöldi, síðan var partý í gestahúsinu eitthvað fram eftir morgni, allavega voru þeir vinirnir að láta renna í heita pottinn þegar gamla settið skreið í fiðrið klukkan að ganga tvö í nótt. Gistu svo allir í gestahúsinu, ekkert lífsmark þar fyrr en um hádegisbil í dag. Afmælisbarnið spilaði á styrktartónleikum í kvöld, hljómsveitin sem hann er bassaleikari í spilaði þar tvö lög við mikinn fögnuð viðstaddra. Núna er hann farinn að sofa, enda vinna í frystihúsinu í fyrramálið, en þar vinnur hann tvo seinniparta í viku með skólanum og á frídögum þegar hægt er. Dugnaðarstrákur, þótt ég segi sjálf frá...
Hjörvar stefnir að því að ljúka grunnskólanum í vor, sleppa 10. bekk og fara í hraðbraut í MA í haust, vonandi gengur það upp.
Annars er allt í góðu í Ásvegi 1, Óttar smíðar sem aldrei fyrr, alsæll í byggingarvinnunni, held það séu einhver gen frá Stebba bróður að koma í ljós þar. Óskar stúderar áfram í VMA, staðráðinn í að ljúka stúdentsprófinu sem fyrst. Siggi puðar í ræktinni alla daga eins og honum einum er lagið, það á að leggja Dyrfjallstind og Glettingskoll í sumar og helst að ná einhverjum bikurum í golfinu líka! Ég er hinsvegar svo heppin að hafa farið með Ara á Dyrfjallstind fyrir langalöngu og þarf því ekkert að gera það aftur! Á meðan afmælisdrengurinn og vinir hans fóru í bíó í gærkvöldi, skelltum við hjónakornin okkur á tónleika með Eyvöru Páls "vinkonu minni", hún var alveg stórkostleg, með hljómsveit með sér í þetta sinn og fór algjörlega á kostum.
Dásamlegt að vera komin í páskafrí, nú á að slaka veeeel á heima fyrir í þetta sinn, stunda útivist og heita pottinn, prjóna og lesa. Gestahúsið er óbókað alla páskana ef einhvern langar að skella sér á skíði eða eitthvað - bara hafa samband!
Páskakveðja til ykkar allra,
Guðný.
24.3.2009 | 22:29
Örfréttir frá Akureyri
Ágætu Jörfaliðar!
"Segjum já við Jörfabloggi" skrifar Stebbi bró og gerist pólitískur. Mekið lefandis ósköp yrði það nú fín ríksstjórn sem væri eingöngu skipuð ættmennum Jörfaliðsins! En nú er svo komið fyrir skrifum okkar hérna á blogginu að ekkert dugir minna en fréttabréf þá loksins sem maður dr....st við að skrifa!
Það er allt fínt að frétta af okkur hérna á Norðurbrekkunni Akureyrsku. Þetta tæpa ár sem liðið er frá því við fluttum hingað hefur liðið ótrúlega fljótt og hér er gott að búa.
Bjarki er í Verkmenntaskólanum á Akureyri og glímir nú við þann höfuðverk að ákveða hvert skal stefna í skólanum næsta vetur. Hann hefur verið á matvælabraut í vetur og líkað vel, en engu að síður komist að þeirri niðurstöðu að eldamennska og þjónusta er ekki hans fag. Hann vinnur í Europris með skólanum og heldur því sjálfsagt áfram í sumar.
Steinar Pálmi ákvað að yfirgefa höfuðborgina og ætlar að taka síðasta mánuðinn í Tækniskólanum utan skóla. Hann sagði blankheitunum stríð á hendur og kaus að velja hagstæðari kjör á fæði og húsnæði hér hjá ma&pa á Holtagötunni. Hann er rétt að renna í hlað þegar þetta er skrifað! Hann verður í vinnu hér á Akureyri í sumar.
Óli gerir það ekki endasleppt í kokkamennskunni! Hann keppir reglulega á milli þess sem hann matreiðir fyrir gesti á Vox. Þar er Food & Fun nýlokið. Hann var einn af fulltrúum Íslands í Norrænni matreiðslukeppni í Bella Center í Kaupmannahöfn um daginn. Framundan er svo landshlutakeppnin Íslenskt eldhús og síðast en ekki síst keppnin um Matreiðslumann ársins. Þar ætlum við að mæta með klapplið!
Vorið var örugglega komið á Norðurlandi um daginn, en ég held að það sé farið aftur...í bili allavega! Verst að þetta stutta vor skyldi taka burtu allan snjóinn. Við erum að skipuleggja ferðir sumarsins, sumarhúsadvöl og fleira skemmtilegt. Svo verður að sjálfsögðu tekinn góður tími í Gamla-Jörfa.
Segjum þetta gott af tíðindum úr Holtagötu 4 og hlökkum til að sjá sem flesta Jörfaliða í sumar!
Sæl að sinni!
16.3.2009 | 16:08
Fréttapóstur úr Akraseli.
Mikið finnst mér Jörfaliðar vera uppteknir af Fésbókinni. Hér á blogginu er algjör deyfð og ætla ég að bæta úr því. Ég skora á alla að birta fréttir af sér og sínum hér, það er síðan hægt að varpa þeim yfir á Fésbókina.
Af okkur er allt gott að frétta. Reyndar var mikil sorg á heimilinu um helgina þegar dverghamsturinn hans Ýmis dó (loksins). Hún Perla var búin að sýna mikil elliglöp undanfarnar vikur og vissum við að hverju stefndi. Þegar hún þvoði á sér trýnið þá missti hún alltaf jafnvægið og datt (þvo - detta - rísaupp - þvo - detta - rísaupp - þvo - detta - rísaupp (svo endurtók hún þetta eftir þörfum)), svo gekk hún út á hlið ! Núna er hún í frysti og bíður þess að það vori svo hægt verði að jarðsetja hana við hlið eiginmansins (sem hún drap reyndar). Það er eins gott að ég taki ekki feil næst þegar ég tek til matinn !
Við höfum verið með studio íbúðina í kjallaranum í útleigu frá því við fluttum í Akraselið. Skúli hefur verið í okkar herbergi og við Sigrún í minnsta herberginu í húsinu. Nú um mánaðarmótin sagði leigjandinn upp og ákváðum við að nota húsnæðið sjálf í framtíðinni. Skúli flutti svo með viðhöfn um helgina, eftir að búið var að mála og kaupa inn húsgögn. Meðal annars var keyptur svefnsófi þannig að nú þarf Gústi ekki lengur að sofa á þunnri dýnu í Safninu. Við fluttum svo í herbergið "okkar" og erum við búin að útbúa skrifstofu í litla herberginu. Ég er búinn að setja upp ágæta aðstöðu í bílskúrnum og er að dunda mér þar við að gera við hljóðfæri þegar tími gefst til.
Ýmir var svo heppinn að fá pláss í sumarbúðum fyrir 11 ára börn á vegum CISV en það eru alþjóðleg samtök sem standa fyrir sumarbúðum fyrir börn og unglinga vítt og breitt um heiminn (sjá www.cisv.org). Samtökin senda marga hópa ár hvert til ýmissa landa en í hverjum hóp eru tveir strákar, tvær stelpur og einn fararstjóri/umsjónarmaður. Ýmir var reyndar extra heppinn því að hann var valinn í hópinn sem fer til Noregs og verður þar allan júlímánuð í stífu skemmtiprógrammi:)
Það er mikil tilhlökkun í gangi og allt að komast á fullt í undirbúningi. Hver hópur fyrir sig hittist t.d. reglulega til að undirbúa ferðina og dvölina, meðal annars með því að búa til ýmiss konar kynningarefni á landi og þjóð til að kynna fyrir erlendu hópunum í sumarbúðunum. Á þennan hátt nær hópurinn líka að kynnast betur innbyrðis áður en haldið er út í hið stóra ævintýri. Í framhaldi af sumarbúðardvölinni þá ætlum við fjölskyldan að hitta Ými úti og eyða a.m.k. hálfum mánuði með Helgu og kó.
Ýmir einnig í lúðrasveitinni, spilar og spilar á trompet.
Skúli er á kafi í FB og er kominn í Gettu betur hópinn. Hver veit nema að hann birtist á skjánum næsta vetur.
Sem sagt; allir kátir í Akraseli og ekki fleiri fréttir þaðan.
Kveðja til ykkar allra.
Akraselir.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.3.2009 | 08:31
Eitt og annað...
Ja hér.... ég veit að ég óskaði eftir smá snjó! bara smá... nú er komið mikið og ég er löngu búin að biðja um að það hætti að snjóa, en það er greinilega ekki hlustað á það. Mamma og pabbi brugðu sér suður yfir heiðar og eru búin að vera þar í listisemdum síðastliðna viku, eins og flestir kannski vita varð Geiri gamli SJÖTUGUR þann annan mars - og hver hebbði nú trúað því? Af öðrum hér er gott að frétta, við bara mokum (þetta hefur heyrst áður) og höfum það svo huggulegt þess á milli. Kv. Magga Á.