,,ekkert að þakka"

Nú er ég byrjuð að vinna aftur eftir sumarfrí. Það er bara besta mál.

Við hjónakornin ferðuðumst innanlands í fríinu og skoðuðum aðallega söfn, bílasöfn x2 (sumir skoðuðu hægar en aðrir), veiðisafn, víkingasafn, vesturfarasetur, fuglasafn..... já og reðursafn. Fuglasafnið, á Neslöndum í Mývatnssveit, stendur nú eiginlega uppúr (reðursafnið meðtalið). 

Síðan var það ,,giggið" í Sveitinni þar sem karl faðir minn spilaði undir hjá Hjördísi Geirs í Dalakofanum (útibúinu). Það toppaði allar safnaferðir. Alveg frábært kvöld, gamli er með þetta Smile. Ég ætlaði nú að troða inn myndum frá kvöldinu. Mun kannski koma því í verk síðar.

 Annars bara bestu kveðjur,

Fjóla Ásg.

PS. Fyrirsögnin er bara það sem ég hefði sagt við Guðnýju eða Möggu EF þær hefðu sagt ,,takk fyrir komuna" EF þær hefðu verið heima á sunnudaginn þegar ég kom til DalvíkurDevil

 


Kveðja frá Noregi.

Við Akraselir (- Skúli sem er heima að vinna) eru staddir hjá Helgu í Noregi.  Í gær náðu Sigrún og Óli í Ými í sumarbúðirnar þar sem hann hefur verið í mánuð.  Hann er sæll og glaður eftir vistina og alveg útkeyrður eftir stanslaust glens og grín. 

Hér rignir eldi og brennisteini og eru vatnsdroparnir á stærð við undirskálar.  Tómas og Katarine kærastan hans fara í kvöld til Tyrklands í tveggja vikna frí og Ari fer tl Íslands í kvöld svo við sjáum ekki meira af þeim að sinni.  Jóhann og Luna, hundurinn hans, halda okkur selskap og Helga snýst í kringum okkur.

Meira síðar. 

 


Já komdu í fjörðinn, því fjörið er hér og upplifðu ævintýr.....

Frænkubeibíin á ByrgisfjalliMikið dæmalaust er nú alltaf gaman og gott að vera í Gamla Jörfa. Engar stíflur að stríða manni, hvorki rit-, meltingarfæra-, eða göngustíflur.

Fórum í heljarinnar svaðilför með Hjörleifi Helga í alls kyns veðri í gær; hagléli, slyddu, sól, vindi, roki, logni og rigningu. Gengum upp í Dimmadal, síðan stystu leið upp á Byrgisfjallið og fetuðum okkur eftir fjallarindum NIÐUR á Hvolsmælinn. Ætlunin var sumsé upphaflega að "skreppa" upp á HvolsmælinnErrm! Ída Guðrún og Dagur lögðu af stað með okkur en sneru við á Dimmadalnum.  Hvílum lúna fætur í dag og leyfum hælsærunum að gróa.......Wink

Nú eru um 17 manns í Gamlanum, Siggi stendur við eldavélina og mallar stóran, stóran pott, fullan af ketsúpu. Veðrið er bara fínt, skýjað og frekar kalt, smá gola en í góðu lagi. Sólin skín glatt í sálu og sinniCool.

G+M


hmmm.....

,,þær" stífluðu eldhúsvaskinn.......

Bræðsluhelgi

Sæl öllsömul.

 

Fyrirhuguð er mikil innrás í Borgarfjörðinn um bræðsluhelgina og skylt að vara við þykir mér. Kvíaholtsfjölskyldan mætir nú strax eftir helgina með tilheyrandi látum og fær svo liðsauka í formi tveggja vinahjóna og jafnvel tengdaforeldra minna til viðbótar. Allir í tjöldum og geta þessvegna pissað í lækinn og burstað sig aðeins ofar, áníðsla á Gamlanum ætti að vera í lágmarki. Má ennþá brúka flötina handan lækjarins ef pláss verður?

 Mér hefur verið stranglega bannað að hafa verkfæri meðferðis þetta skiptið, það bíður vinnuferðar undirritaðs í haust. Hamar gæti þó slæðst með, glettilega mikið hægt að gera með hamri.

 

Hjörleifur.


Muna eftir að hlusta á þáttinn Á sumarvegi á Rás 1 29/7 kl. 13:00 (19:00)

Úr dagskrá RUV:

Á sumarvegi.Fluttur: miðvikudagur 29. júlí 2009 kl. 13.00.Endurfluttur: 29. júlí 2009 kl. 19.00

Umsjón: Guðný Sigríður Ólafsdóttir, grunnskólakennari á Dalvík. Guðný er ættuð frá Borgarfirði eystra og telur mikið frelsi fólgið í því að heimsækja æskustöðvarnar og upplifa þá einstöku náttúru sem Borgarfjörður hefur upp á að bjóða. Í þættinum rifjar Guðný upp ýmsar endurminningar.

Kv/ÓA 

Hann er her:  http://dagskra.ruv.is/ras1/4470088/2009/07/29/

 


Mikið að gerast fyrri hluta sumars 2009 – dagbókarbrot Guðnýjar.

Golfhjónin eftir Landsmótið 09

Strax eftir skólalok í vor, 9. júní, var farið í sumarbústað á Flúðum ásamt Guju og Ragga.  Ekki var farin stysta leið í bústaðinn, heldur byrjuðum við á því að keyra austur fyrir, til Fáskrúðsfjarðar og heimsækja tengdó og hitta frændfólk Sigga frá Færeyjum. Við gistum fyrstu nóttina í fríinu í hjólhýsinu þeirra Adda og Lindu, en það líkist helst þriggja stjörnu hóteli, mjög flott og vel útbúið. Um hádegið daginn eftir komu svo Guja og Raggi og þá lögðum við upp í ferðina til Flúða. Við keyrðum rólega suðurfirðina, stoppuðum í steinasafni Petru í Stöðvarfirði, borðuðum hádegismat á Café Margréti á Breiðdalsvík, fengum okkur kaffi í Löngubúð á Djúpavogi, versluðum í Samkaup á Hornafirði og kvöldmatur var etinn á Kirkjubæjarklaustri. Við vorum komin í bústaðinn rétt fyrir miðnættið 10. júní.  Þar dvöldum við síðan næstu vikuna; spiluðum golf og þvældumst um nærliggjandi héruð á daginn, elduðum góðan mat og enduðum daginn gjarnan í heita pottinum. Mikið dásemdarlíf. Miðvikudaginn 17. júní var lagt af stað heim með viðkomu í Hótel Valhöll á Þingvöllum(blessuð sé minning hennar) þar sem við fengum okkur íslenska kjötsúpu.

Eftir að hafa tekið upp úr töskunum og þvegið fötin mín, pakkaði ég aftur niður og á föstudagsmorgun var lagt upp í fimm daga kórferð um Vestfirði með Samkór Svarfdæla. Sú ferð var mjög vel heppnuð, við sungum á Bolungarvík, Þingeyri og Reykhólum, gistum í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp, á Núpi við Dýrafjörð, í Hótel Látrabjargi í Örlygshöfn og Hótel Bjarkarlundi. Vestfirðir sýndu sínar bestu hliðar, við fengum mjög gott veður og allt í plús.

Við komum heim úr þessari ferð þriðjudaginn 23. júní.  Daginn eftir hófst síðan meistaramót GHD sem við hjónin tókum bæði þátt í, og lauk því ekki fyrr en á laugardaginn 27. júní. Vikan þar á eftir var nokkuð róleg hjá minni, naut góða veðursins í botn;  gönguferðir  fyrri partinn, golf seinnipartinn. Ég tók þátt í Gönguviku Dalvíkurbyggðar, fór í grasagöngu frammi í Klængshóli og fræddist um nýtingu jurta, eins fór ég í Strandgöngu þar sem gengið var með stórskemmtilegri leiðsögn frá Árskógssandi til Hauganess þar sem endað var í sjávarréttaveislu á bryggjunni. Við Magga gengum upp í Lokugarnir einn daginn og upp að Kofa á Böggvisstaðadal annan dag, síðan fékk ég mér góða gönguferð í gær, gekk upp á Melrakkadal. Við sáum um veitingasöluna í golfskálanum frá mánudeginum 6. til fimmtudags  9. júlí, en föstudaginn 10. og laugardaginn 11. vorum við hjónakornin að keppa í golfi á Landsmóti Ungmennafélaganna.   Veðrið á Dalvík og nágrenni hefur verið stórkostlegt síðustu vikur, sól, logn og hiti 15-20° dag eftir dag.

Við fengum góða gesti á föstudaginn var, þegar Steini, Bogga, Inga og  Jónas komu í heimsókn og voru hjá okkur í tvær nætur; Bogga keppti í 10 km. hlaupi á Landsmótinu á laugardaginn var og stóð sig með sóma. Við notuðum síðasta heita kvöldið í bili og grilluðum lambalæri og buðum í veislu úti á pallinum og stungum okkur  síðan í pottinn áður en skriðið var í ból.

Nú ætla ég mér að taka það rólega hér heima fyrir næstu dagana;  lesa og slappa af, enda sýnist mér veðrið ekki til annars, norðanátt í kortunum svo langt sem augað eygir!

Síðan er það Borgarfjörðurinn besti eftir næstu helgi, þar ætlum við að vera í viku til 10 daga, fer eftir ýmsu hve lengi verður stoppað. Set í myndaalbúm sitt lítið af hverju sem tengist þessari sögu minni.

Kveðja, Guðný.


Geitungastríð í Holtagötu

P1030631P1030635P1030644Komiði sæl og blessuð!

Þegar húsmóðirin í Holtagötu 4 var í sakleysi sínu að slá lóðina í vikunni réðust að henni tveir herskáir geitungar og stungu ógurlega! Bólgur og sársauki fylgdu í kjölfarið og strax var ákveðið að þessa skyldi hefnt!!

Því varð húsbóndinn að telja í sig kjark og gægjast á bakvið runna. HOLY MOLY.....þarna var þá stærðar kúla sem iðaði af þessum bannsettum óþokkum! Nú var haldið út á bensínstöð og keyptur myndarlegur staukur af flugnaeitri; BANI-1.

 Með eitrið, plastpoka, trjáklippur og viðeigandi hlífðarfatnað að vopni, var ráðist til atlögu!! Fullkominn sigur! Og þó.....það voru víst ekki allir heima í búinu og það kostaði smá eftirorrustu. En geitungabúið er komið í ruslatunnuna og vonandi erum við laus við þessa skratta í sumar! Annars er það BANI-2!!

Kv. Gus-Terminator!

.......fleiri myndir í albúmi.


Grillað hjá Guju og Ragga

Grill01

Það var sannkallað sumargrill hjá Guju og Ragga í gærkvöldi. Lax og bleikja á grillinu og stöku kjötbitar fyrir þá sem ekki borða fisk;)Grill02

Veðrið var frábært, hiti á bilinu 20-30 stig og maturinn ekki síðri.

Grill03

Myndirnar tala sínu máli!

Kv. Gústi.

 

 


Ferðalag um Vestfirði.

ferðalag um vestfirði 179Sælt veri frændfólkið og annað fólk.

Við vorum að koma úr miklu ferðalagi um Vestfirðina, og var þema ferðalagsins "eyðibyggðir og horfnir starfshættir". Hann Stefán Óli býður áhugasömum að kíkja á heimasíðuna sína 123.is/so og skoða myndir.

Annars allt gott að frétta, kær kveðja - Ólafur Ágúst


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband