22.10.2009 | 23:11
Milliættarmót 2010
Halló!
Ég ákvað að stofna nýtt blogg fyrir ákaflega spennandi umræðu sem Fjóla kom af stað. Semsagt ættarmót milli ættarmóta; "milliættarmót". Umræðan er að komast á flug sem er auðvitað hið besta mál! Akraselir styðja þetta, Magga Ásg. líka og ég tek undir!
Fjóla bendir á http://www.daeli.is/ sem lítur vel út og greinilega gott pláss fyrir stórfjölskyldur eins og Jörfaliðið! Svo er bar.....
Í sumar héldu afkomendur Gísla og Heiðu (tengdó) fjölskyldumót í Keldudal í Skagafirði. Þar er mjög fín aðstaða, hægt að leigja hús og gott pláss fyrir fellihýsi, tjaldvagna og tjöld. Sjá hér: http://www.keldudalur.is/.
Þá komumst við að því að svona aðstaða er oft frátekin með löngum fyrirvara og við lentum í vandræðum með að fá hentuga aðstöðu. Þannig að ef við stefnum á að hittast í sumar, þurfum við að ákveða stund og stað með góðum fyrirvara. En hvað með Skorradalinn? Er það hús ekki uppistandandi ennþá?
Kv. Gústi (51).
Ps. Svo er hann Bjarki Rafn 18 ára í dag. Við drífum alltaf í þessu í október feðgarnir!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.10.2009 | 12:16
Haustferð til höfuðborgarinnar
Við hjónakornin ásamt Hjörvari Óla bruggðum okkur í menningarferð til höfuðborgarinnar í síðustu viku. Afar vel lukkuð ferð, þar sem við náðum að vísitera nokkra í innsta hring, þótt alltaf verði einhverjir útundan. Við náðum að viðra StórÓla og Sigrúnu, drógum þau með okkur í Kolaportið og síðan á kaffihús, það kom í ljós að Sigrún hafði ekki farið þangað síðan Ástþór nokkur var í forsetaframboði! Greinilega afar þarft að viðra þau hjónin reglulega.....
Ása Björk fékk slæmt norðan áhlaup á sig, við hittumst í miðbænum þar sem Skarphéðinn Án ásamt hljómsveit sinni var að hita upp fyrir Iceland Airwaves og var virkilega gaman að horfa/hlusta á þau, flott hljómsveit. Við fórum síðan heim með Ásu og skoðuðum fallegu íbúðina hennar og fengum okkur að borða áður en við fórum í bíó. Dagur Atlason kom síðan í heimsókn til Eyvindar, þeir aðstoðuðu við slátrun á Litlu-Brekkusvæðinu og fóru síðan í bíó á laugardagskvöldið og buðu Hjörvari Óla síðan í partý og gistingu. Hann fór til þeirra eftir leikhúsferð, við sáum Harry og Heimi í Borgarleikhúsinu. Ef menn eru orðnir þreyttir á bölsýnisfréttum og krepputali mæli ég með því leikriti, maður situr og hlær í tvo tíma og kemur út hress og kátur - hinsvegar situr afar lítið eftir!
Ása bar sig ótrúlega vel eftir þetta norðanáhlaup.
Á sunnudeginum buðu Skúli og Linda í bröns áður en við lögðum af stað norður, ég kíkti líka til Bínu minnar á leiðinni þangað. Nú, síðast en ekki síst var komið við á Skaganum hjá Fjólu og fjölskyldu - við gerum það ALLTAF þegar við förum til Reykjavíkur.... Þar beið okkar dýrindis terta og skonsur, alltaf afar notalegt að koma við hjá Fjólu og Viðari eins og við gerum ALLTAF þegar við eigum leið suður.
Hinsvegar kemur Helga Sess ALLTAF til Fjólu þegar við komum við, núna var hún að meðhjálpa prestinum og komst ekki, við fyrirgefum henni það alveg.....
Semsagt, afar vel lukkuð ferð, hittum fullt af frábæru fólki og afrekuðum ótrúlega mikið á stuttum tíma!
16.10.2009 | 10:47
Hann á afmæli í dag..... hann GÚSTI ....
4.10.2009 | 14:42
Borgfirðingar í sjávarháska árið 1955
Sæl öll!
Eftirfarandi frásögn skrifaði Gunna systir upp úr einni af bókunum "Þrautgóðir á raunarstund" og alveg tilvalið að birta hana hér. Það er fróðlegt fyrir okkur öll að lesa þetta!
Kv. Gústi.
Tveir trillubátar farast
13. febrúar 1955, fóru tveir trillubátar frá Bakkagerði í Borgarfirði eystra með varning til eina býlisins sem þá var eftir í Húsavík eystri.
Lögðu bátarnir af stað um hádegisbil og gekk ferðin til Húsavíkur að óskum, en þangað er um þriggja klukkustunda sigling frá Bakkagerði. Í Húsavík höfðu bátarnir skamma viðdvöl og lögðu af stað aftur heimleiðis um klukkan hálf fjögur.
Þá var veður tekið að versna og skall brátt á með mikið hvassviðri. Bátarnir höfðu samflot, en er þeir voru komnir norður undir Glettinganes bilaði vélin í öðrum bátnum. Tók hinn hann þá í tog og síðan var ferðinni haldið áfram, en seint sóttist á móti veðri og sjó.
Um kvöldið er bátarnir voru komnir norður fyrir Brúnavík, á móts við Almenningsfles, bilaði vélin í bátnum sem dregið hafði. Þá var það tekið til bragðs að slá undan og tókst að sigla í var inni á Brúnavík og gerða við bilunina til bráðabirgða.
Reynt var að leggjast við akker, en þar sem veðurhæðin fór vaxandi, tókst ekki að hemja bátana og rak þá hinn vélarvana upp í klappir norðan víkurinnar. Bjargaðist sá eini maður sem í honum var þar í land, en áður hafði annar bátsverja farið yfir í hinn bátinn. Hvarf þessi bátur þarna sjónum manna og sást ekki aftur.
Veður fór versnandi og skömmmu síðar kom enn gangtruflun í vél þess báts er enn var ofansjávar og rak hann út með ströndinni. Samt tókst að ná landi í síðasta viki í klappirnar norðan víkurinnar áður en komið var út undir svonefnt Brúnavíkurbjarg, en þaðan er ógengt með öllu við slíkar aðstæður er þarna voru.
Engin byggð var þarna og varð að ráði að einn bátsverjanna, Ingi Jónsson, héldi til byggða og léti vita hvernig komið væri. Varð hann að fara yfir allhátt skarð, Brúnavíkurskarð, á leið sinni til byggða. Efst í því var svo mikið harðfenni að hann gat ekki fótað sig í óveðrinu og varð að skríða yfir skarðið.
Þegar bátarnir komu ekki til Bakkagerðis á eðlilegum tíma, var tekið að óttast um afdrif þeirra og haft var samband við Slysavarnarfélag Íslands og beðið um aðstoð. Lét félagið kalla upp báta og skip fyrir Austurlandi, en í ljós kom að engin voru nærri þeim slóðum sem bátarnir voru á. Varðskipið Ægir hélt því þegar af stað til leitar, en átti langa siglingu á staðinn.
Frá Borgarfirði var gerður út leiðangur inn í Brúnavík, en menn óttuðust að bátarnir hefðu farist þar. Á leiðinni þangað mættu leiðangursmenn Inga og var síðan farið hinum mönnunum til aðstoðar. Þegar í Brúnavík kom, voru þeir rétt að leggja af stað á skarðið. Sóttist ferðin til Borgarfjarðar allvel og voru allir komnir heim laust eftir miðnættið.
Þeir sem í hrakningunum lentu, auk Inga Jónssonar, voru þeir Ólafur Ágústsson, Vigfús Helgason og Georg Nilsen, allir frá Bakkagerði. Trillubátarnir voru báðir um 2 tonn að stærð. Annar þeirra var í eigu Kaupfélagsins á Borgarfirði, en hinn í eigu kaupfélagsstjórans. Bátarnir urðu með öllu ónýtir, en vélinni úr öðrum tókst að bjarga.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.9.2009 | 17:40
Óli Gústa í sjónvarpinu !!!
http://www.inntv.is/index.php?option=com_n-thattur&do=watch&vid=1413&id=15&Itemid=27
Byggið frá Eymundi í Vallanesi er svo heilnæmt að Egilsstaðabúar eru allir stórir og sterkir. Eins og StórÓli. (hann er líka góður kokkur (allavega sá besti af Akraselunum))
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.9.2009 | 01:22
já, og næsti :)
24.9.2009 | 13:54
og næsta

23.9.2009 | 21:21
Takk fyrir afmæliskveðjurnar.
Elskurnar mínar, takk fyrir afmæliskveðjurnar. Ég get alveg viðurkennt að ég hafði ansi mikinn kvíða inni i mér og spáði í það hvort ég ætti nokkuð að fara á fætur daginn sem ég varð 50, en lét mig svo hafa það. Hafði bara mjög góðan dag og allavega þann besta i langan tíma.
Kveðja Helga ( öra )
Vinir og fjölskylda | Breytt 24.9.2009 kl. 13:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2009 | 20:09
Helga fimmtug
Hún Helga ,,öra" á fimmtugsafmæli í dag (hún er líka langelst af gömlu börnunum)
Mikið hefði nú verið gaman að skreppa í köku en í staðinn sendir maður bara allra bestu kveðjur.
Fjóla Ásg og fjölsk.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.9.2009 | 20:13
Sjómannadagurinn á Borgarfirði árið 1990
Sæl öll!
Okkur áskotnaðist þessi skemmtilega ræða sem var flutt þegar pabbi var heiðraður á sjómannadaginn, líklega árið 1990. Það var Ásta Geirs. sem sendi mér þetta, en mamma hennar varðveitti þessa ræðu.
Kv.Gústi
---------------------------------------------
Óli Gústa heiðraður á sjómannadag.
Það má heita fastur liður í sjómannadagshaldi víða um land, að aldraðir sjómenn eru heiðraðir og þeim þökkuð löng og farsæl störf. Í dag ætlum við að heiðra þann sveitunga okkar, sem einna lengst af Borgfirðingum hefur stunda sjómennsku og byggt afkomu sína af þeim afla sem hann hefur sótt í greipar Ægis. Þessi sjómaður er Ólafur Ágústsson í Jörfa, best þekktur meðal sveitunganna sem Óli Gústa.
Í þessu áhættusama og erfiða starfi hefur hann verið farsæll og heppinn. Og nú þegar hann hefur kvatt Ægisdætur fyrir fullt og allt og lætur hugann reika til liðins tíma, þá getur hann verið forsjóninni þakklátur fyrir það, hve hún hefur verndað hann fyrir hvers konar slysum og áföllum sem svo oft henda þá sem sjóinn sækja.
Ólafur Ágústsson er fæddur 7.september 1912, sonur hjónanna Margrétar Stefánsdóttur og Ágústs Ólafssonar. Margét móðir Óla var dóttir Stefáns Jónssonar í Úraníu og Þuríðar Guðmundsdóttur, en Ágúst faðir hans var sonur hjónanna Ólafs Bergssonar kennara og hagyrðings og Guðrúnar Guðmundsdóttur. Óli var eini sonur hjónanna Margrétar og Ágústs, en dæturnar voru fjórar og eru þær allar látnar.
Margrét móðir Óla dó 1917 þrítug að aldri, þá var hann 5 ára gamall. Eftir það ólst hann upp hjá föður sínum og Guðrúnu ömmu sinni. Guðrún amma Óla dó 1936 þá komin yfir áttrætt. Eftir það bjuggu þeir feðgar saman næstu árin. Ágúst dó árið 1944.
Árið 1943 gekk Óli að eiga Helgu Sesselju, dóttur hjónanna Bergrúnar Árnadóttur og Jóhanns Helgasonar sem þá bjuggu á Ósi. Þau eignuðust sjö börn sem öll eru á lífi og hinir nýtustu þjóðfélagsþegnar. Konu sína missti Óli í ágúst 1982 og hefur síðan búið einn, en hann á marga vini og kunningja sem hafa gaman af að líta inn og rabba við hann. Jafnvinsæll maður og Óli Gústa, verður ávallt talinn ríkur, þó sá auður verði ekki talinn í krónum.
Snemma beygist krókurinn til þess sem verða vill segir gamall málsháttur. Frá bernsku var hugur Óla bundinn sjónum og á níunda ári var hann, þegar hann fór í sinn fyrsta róður og þá með Færeyingi sem hét Salómon Gregerson, en margir Færeyingar réru hér á þeim árum. Að sögn Óla var afli hans lítill í það skifti, en sjóveikin þeim mun meiri. Sumarið sem hann var 10 ára fór hann nokkra róðra með föður sínum og Arnóri Árnasyni, þá setti hann einu sinni í stóran fisk sem hann réði ekki við og ekki gaf sjóveikin heldur nokkur grið svo hann hélt í föður sinn til hjálpar, en þá glotti karl og mælti Fórstu ekki á sjóinn til að draga? og fiskinn innbyrti Óli. Áfram var haldið næstu árin, róið með Sveini Gíslasyni á Bakka, Haraldi Ingvarssyni á Lindarbakka og nokkur sumur réri hann með Hjallhóls-bræðrum.
Árið 1932 og 1934 réri Óli norður í Hrísey á 8 tonna bát. Á sumardaginn fyrsta, annað árið sem Óli var í Hrísey hreppu þeir aftakaveður á Grímseyjarsundi, þar sem þeir voru að draga línuna. Stærri bátar flýðu í land frá ódregnum línum sínum, en Óli og félagar hans þraukuðu uns dregin var línan og telur hann þetta mesta veður er hann lenti í á allri sinni sjómannstíð. Farið var að óttast um þá félaga, en landi náðu þeir slysalaust með góðan afla.
Fyrsta bát sinn eignaðist Óli 1940. Það var tveggja tonna trilla, svokallaður færeyingur, frá Vopnafirði, hlaut hann nafnið Sæljónið. Bátinn átti hann í 3 ár, fær sér þá annan af sömu stærð og gerð, hét hann líka Sæljónið. Upp úr 1950 eignast Óli bátinn Eystein og loks Báruna 1969. Í síðasta róðurinn sinn fór Óli fyrir þremur árum, þá hálf áttræður.
Hér hefur löng og happasæl sjómannssaga verið sögð í fáum orðum. Nú er þessi aldni heiðursmaður sestur í helgan stein, ánægður með hlutskifti sitt í lífinu og þó svo ungur í anda að enn á hann það til að bregða sér út á dansgólfið með einhverja dömuna í fanginu, þegar hann heyrir fjöruga harmonikku-músik.
Vinir hans óska honum til hamingju með daginn og þakka honum margar góðar samverustundir.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)