22.12.2013 | 14:44
Elsku Jörfaliðar !!!!!
Elsku Jörfaliðar!!!
Sendi ykkur mínar bestu óskir um gleðileg jól og farsældir á komandi ári
Kær kveðja
Helga og fjölskylda
Noregi
7.5.2013 | 20:39
Pláss 9. - 12.13 eða 14. júlí
Mig langar að vita hvernig staðan á Gamla Jörfa er dagana 9.-12./13.14. júlí? Við erum á staðnum á þeim tíma og mig langar að vita hvort það er pláss "inni" :-)
Kveðja,
Ása Björk
25.2.2013 | 17:37
Glettingskollur
Gunna, ég ætla með þér á Glettingskoll fyrst ég afrekaði að komast þangað í hittifyrra. Veljum okkur gott veður, útsýnið er svo magnað að það þarf helst að vera bjart.
Mér finnst þú ótrúlega brött svona stuttu eftir aðgerð og ég veit þú kemst sko alveg á Kollinn!
Ólara, geturðu ekki lengt líftímann á kommentunum svo við getum kommentað þótt færslan sé komin á aldur?
Kveðja, litla.
29.1.2013 | 14:38
Mont
Jæja "Jörfadrasl".... (sagði Kári) ...... Nú er ég komin með stálið. Glettingskollur í júlí-ágúst! Hver ætlar með mér ?
Gamla rúskin
27.12.2012 | 19:49
Skemmtileg.
Vonandi verður margt skemmtilegt í fréttum hjá okkur á nýja árinu
Bestu kveðjur. Gunna.
1.11.2012 | 15:38
Hvaeredda, er ekkert í fréttum ?????
26.9.2012 | 22:01
Bréf í tilefni aldarafmælis
Fyrir nokkrum dögum barst mér inn um lúguna fallegt bréf með fallegri mynd. Þar sem þetta bréf er til okkar allra ætla ég að láta það fylgja hér með. Kær kveðja Guja.
Vinir og fjölskylda | Breytt 27.9.2012 kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.9.2012 | 18:04
Aldarafmælið í hnotskurn :)
Aldarafmæli Óla Gústa var haldið hátíðlegt á Borgarfirði eystra 7. september 2012. Mæting var allgóð, öll Jörfasystkinin mættu og slatti af afkomendum, alls um 35 manns, en við erum rúmlega 100 manns í dag, þegar makar eru meðtaldir.
Á föstudaginn fóru Guja og Guðný um þorpið og buðu í afmælið, hittu ekki marga, enda göngur og réttir um helgina og margir að heiman. Inga setti á nokkrar marengstertur, Guja bakaði ógrynni af kleinum, mánaðarbollarnir voru dregnir fram og dúkað borð gjörið þið svo vel! Gamlir sveitungar og vinir pabba komu í kaffi, stöldruðu við góða stund og spjölluðu. Afar notaleg dagstund. Á meðan á þessu stóð var kjötsúpugerð í Sjávarborg, þar sem Guja, Raggi og afkomendur höfðu hreiðrað um sig.
Um kvöldmatarleytið var tertuafgöngum smellt í kæli og súpunni dröslað niður í Jörfa við verðum nú að halda uppi málum! Eftir súpu flutti yngri deildin sig út í partýtjald sem nefndin hafði leigt, skreytt og hitað upp og var skrafað, sungið og hlegið þar fram eftir nóttu, Gamli-Jörfi hafði það rólegt á meðan.
Laugardagurinn rann upp með þokusúld, samt rifu hraustustu Jörfaliðarnir sig upp eldsnemma og mættu inn í Brandsbalarétt og tóku þátt í stuðinu þar. Þegar leið á daginn fóru nefndarmenn að undirbúa kvöldið, Hjörleifur eldaði fullan pott af dýrindis kássu og sauð smá hrísgrjón með, Lilja græjaði fullt af dásemdar skyrtertu, Gústi bauð upp á salat og Sigrún og fleiri þrifu og vöskuðu upp.
Um kvöldið stóð nefndin síðan fyrir kvöldvöku í Hótel Álfheimum. Þar voru rifjaðar upp sögur af pabba/afa/langafa/langalangafa, afmælisbarninu Óla Gústa, og var mjög fróðlegt og skemmtilegt að hlýða á þær. Það var sungið, dansað og hlegið eins og Jörfaliðinu er lagið
unaðsleg kvöldstund!
Vöknuðum í rigningu og svarta þoku á sunnudagsmorgni, lítið eftir að gera nema tygja sig til ferðar, vonandi komust allir heilu og höldnu til síns heima. Stebbi og Ragna njóta þeirra forréttinda að kúra sig inni í Jörfa, hlusta á malið í Sóló og njóta sín í rólegheitum næstu dagana.
Guðný skrásetti.
7.9.2012 | 11:07
Aldarafmæli í dag :)
Eysteinn NS 376 er kominn í land og Óli Gústa og Baldur nýbúnir að landa afla dagsins. Helga Sesselja er komin til að hjálpa afa sínum í aðgerð og Dagur í Sætúni situr í kunnuglegum stellingum á bryggjukantinum. Neðar við bryggjuna er verið að landa úr Hafsúlunni og fleiri bátum. Í dag eru liðin 100 ár frá fæðingu föður míns; Ólafs Ágústssonar, sjómanns á Borgarfirði eystra. Um helgina minnumst við, afkomendur hans, þessara tímamóta heima í Gamla-Jörfa. Sjórinn og fiskurinn, veiðar og vinnsla, voru starfsvettvangur pabba í ríflega hálfa öld. Aldrei þreyttist hann á að tala um sjóinn og sögurnar hans af sjómennskunni voru óþrjótandi. Sjálfur réri ég með pabba eitt sumar og gleymi því seint. Kannski ekki síst fyrir sjóveikina sem varð til þess að sjómennskan varð aldrei mitt fag.
Til hamingju með afmælið, Jörfaliðar!
Gústi.
2.9.2012 | 21:22
100 ára afmæli Óla Gústa
Þá er komið að því! Skemmtilega skemmtinefndin er búin að funda stíft síðustu daga og vikur til að undirbúa 100 ára afmælisfagnað Óla Gústa í Gamla Jörfa. Niðurstaðan er eftirfarandi:
Á föstudaginn verður afmæliskaffi í Gamlanum og súpa um kvöldið að hætti hússins. (Kjöt á beini blandað með líter af gleði, dassi af hamingju og kíló af skemmtilegheitum). Gestir komi með drykki hver fyrir sig.
Á laugardagskvöldið ætlum við að hafa það huggulegt í Álfheimum. Hjörleifur Helgi töfrar fram "kássu" og gestir koma með drykki sjálfir. Hver leggur kemur svo með eitt skemmtiatriði.
Þeir sem eiga litla rafmagnshitablásara mega gjarnan taka þá með, því planið er að tjalda fyrir utan Jörfa á föstudeginum.
Mikið lifandis skelfingar ósköp verður nú gaman að sjá ykkur öll :)