29.11.2009 | 22:29
Aldrei neitt að gerast....jú annars! Lubbinn 09!!
Jæja, haldið þið ekki að það sé kominn tími á nýtt blogg? Allir lööööngu hættir að nenna að kíkja hér inn, það gerist aldrei neitt fréttnæmt hjá þessu Jörfaliði....
Jú, einhverjir áttu afmæli, það þykir stundum fréttnæmt....barn var skírt Viðar Jarl, annað eins hefur nú einhvern tíma þótt fréttnæmt....menn fóru til útlanda og ekkert fréttist af því....engar nýjar myndir og ekkert að gerast. Ída Guðrún í Frakklandi, Helga Öra í Noregi og allir hinir útttlendingarnir okkar gá og gá, en ekkert gerist hjá þessu Jörfaliði.....
Nei, nú gengur þetta sko ekki lengur og skal bætt úr þessu, því það er allavega fréttaefni þegar nánast öll Norðurlandsdeild Jörfaliðsins kemur saman og undirbýr jólin, en það gerðist einmitt í gær.
Í ár vorum við í Sunnubrautinni; Gunna og Geiri, Magga, Atli og Dagur, Gústi, Magga, Steinar, Karítas og Bjarki, Guðný, Siggi, Óskar og Hjörvar Óli, Lilja, Lára Hlín og Hildur Gauja, Óli, Dagný, Daníel Skíði og Emil.....held ég gleymi engum. Skornar voru út og steiktar fleiri kökur en nokkru sinni; hveiti, heilhveiti, heilhveiti með kúmeni, rúgmjöls... allar hugsanlegar sortir af laufabrauði og fóru menn á kostum með hnífinn. Birtust hin ýmsustu mynstur listilega út skorin, heilu húsin undir stjörnubjörtum himni, flestir bókstafirnir í stafrófinu og jafnvel orð og ártöl. Meðfram þessu drukku menn ljúffengan og ilmandi aðventudrykk a la Guðný og mauluðu piparkökur, sachertertu, súkkulaðirúsínur, mandarínur og fleira góðgæti. Mandarínumetið setti Danni, borðaði einar sjö mandarínur á einu bretti! Jólalögin ómuðu og kættu hlustir okkar og jólaandinn sveif yfir vötnunum, Magga fékk meira að segja að hlusta á Eddukórinn sinn og allt var í plús. Reglulega hljómaði Heims um ból af geisladiski og brást ekki að einhver stökk á fætur með það sama og skipti um lag, enda fullsnemmt að hlusta á það - aðventan ekki einu sinni byrjuð!
Um steikinguna sáu Guja, Rögnvaldur og Gústi framan af, síðan tóku Guðný og Magga við og hefðu þær örugglega aldrei getað það nema fyrir snaggaralega og ómetanlega aðstoð Láru Hlínar, sem taldi kökurnar í stafla, reif niður eldhúsþurrkur, rétti og pressaði - allt í senn. Síðan stytti hún þeim stundir við steikinguna með söng, dansi og frásögnum af bekkjarsystkinum sínum - bara dásamleg.
Eins og sjá má af meðfylgjandi myndum skemmtu unglingarnir sér vel við skurðinn og mátti heyra hlátrasköll úr sófanum þar sem þeirra vinnustöð var. Hildur Gauja reyndi að slökkva á kerti með berum höndum, en mistókst, það er ekki reiknað með því að hún reyni það aftur. Guju ömmu fannst Emil orðinn svo duglegur að labba að hún sleppti fullsnemma af honum hendinni þannig að hann fékk smá byltu, við vonum að hann sé búinn að fyrirgefa ömmu sinni það. Geiri stóð sig eins og hetja í skyrtunni hans tengdapabba og Gunna sá unglingunum fyrir kökum á meðan hún skar sjálf út á við þrjá.
Ólafur Helgi gerði sér lítið fyrir og skaut nokkrar rjúpur áður en hann mætti í lubbann, redda jólamatnum, ekki má það klikka!
Ekki fleira að sinni....jú annars, ég lofaði að setja inn blogg og nokkrar myndir, allir hinir sem voru með myndavél lofuðu að bæta svo við fleiri myndum, sjáum til hvað gerist..... Albúmið heitir Lubbinn 09.
Dalvík, fyrsta sunnudag í aðventu 2009
Guðný.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:41 | Facebook
Athugasemdir
Svo sannarlega dásemdardagur. Í gær fórum við Þrastarhólsbúar svo á aðventuhátíð í menningarhúsinu Bergi. Hlustuðum á Helgu Bryndísi og Kristjönu Arngríms. flytja jólalög og sáum danshópinn Vefarann dansa þjóðdansa.... við ætlum ekki að ganga í Vefarann.. Drukkum svo dásemdar súkkulaði og kaffi á eftir. Það gengur hægt að setja upp seríur, en eldhúsið er óðum að taka á sig rétta mynd og þá verður nú hægt að fara að huga að seríu-uppsetningu. Piparkökuþorpið er komið upp á bæjarskrifstofunni, búið að kveikja á kaupfélagsstjörnunni og jólatréinu hjá Bárubúð þannig að þetta er allt að gerast
já ... og svo er búið að setja kirsuberjalíkjör á aðventuflöskuna.
Kv. góð úr Þrastarhóli.
________________________________________________________, 30.11.2009 kl. 08:48
Góðan daginn
Við Eyvindur fórum í gær á Ánabrekku þar sem elsta heimasætan hélt uppá sex ára afmælið sitt með miklum brag. Þar var stórfjölskyldan meira og minna samankomin fyrir utan mína elstu menn og Óla fjölskyldu sem var að vinna. Það var ekki í kot vísað þar frekar en fyrri daginn. Kökur út og suður og vöfflur eins og hver gat í sig látið. Systurnar á Ánó eru dásamlegar og verða skemmtilegri og fallegri með hverjum deginum sem líður.
Annars allt gott og allir glaðir. Kveðja - Ása Björk
________________________________________________________, 30.11.2009 kl. 11:23
Sunnudagurinn var seríudagur í Holtagötu 4. Við Bjarki héngum utan á húsinu fram eftir degi. Gerðum tveggja tíma hlé til að sigra borgarslaginn í Liverpool og kláruðum eftir það með bros á vör. Aðventuljósin komin í gluggana og seríum innanhúss fer fjölgandi. Húsmóðirin búin að hræra í yndælis smákökur og aðventan sannarlega gengin í garð. Annað kvöld förum við svo á árlegt hangikjötskvöld hjá karlakórnum.
Bestu kveðjur, Gústi & co.
________________________________________________________, 1.12.2009 kl. 00:23
Ein útisería komin í samband en hún hefur hangið síðan síðast. Skúli er kominn í upplestrarfrí, Ýmir kom buffaður úr skólanum í dag með glóðarauga og haltur með marið læri. Annars er fátt að frétta en allt gott úr Akraselinu.
________________________________________________________, 1.12.2009 kl. 00:45
Já, og við erum byrjuð að gefa fuglunum. Það eiga allir að gefa smáfuglunum. Gústi, hvernig gengur ?
Akraselir.
________________________________________________________, 1.12.2009 kl. 00:46
Æi hver var svona vondur við hann Ými minn, þurfum við að koma ooooog
Magga og Gústi (IP-tala skráð) 1.12.2009 kl. 11:53
Oh eg hugsadi sko til ykkar allan laugardaginn sem thid vorud ad gera laufabraudid, hefdi svo sannarlega viljad geta skroppid heim og verid med ykkur.
Kvedja fra Frakklandi :)
Ida Gudrun (IP-tala skráð) 2.12.2009 kl. 12:21
OOOOg myndirnar hrúgast inn.....
________________________________________________________, 5.12.2009 kl. 23:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.