4.10.2009 | 14:42
Borgfirðingar í sjávarháska árið 1955
Sæl öll!
Eftirfarandi frásögn skrifaði Gunna systir upp úr einni af bókunum "Þrautgóðir á raunarstund" og alveg tilvalið að birta hana hér. Það er fróðlegt fyrir okkur öll að lesa þetta!
Kv. Gústi.
Tveir trillubátar farast
13. febrúar 1955, fóru tveir trillubátar frá Bakkagerði í Borgarfirði eystra með varning til eina býlisins sem þá var eftir í Húsavík eystri.
Lögðu bátarnir af stað um hádegisbil og gekk ferðin til Húsavíkur að óskum, en þangað er um þriggja klukkustunda sigling frá Bakkagerði. Í Húsavík höfðu bátarnir skamma viðdvöl og lögðu af stað aftur heimleiðis um klukkan hálf fjögur.
Þá var veður tekið að versna og skall brátt á með mikið hvassviðri. Bátarnir höfðu samflot, en er þeir voru komnir norður undir Glettinganes bilaði vélin í öðrum bátnum. Tók hinn hann þá í tog og síðan var ferðinni haldið áfram, en seint sóttist á móti veðri og sjó.
Um kvöldið er bátarnir voru komnir norður fyrir Brúnavík, á móts við Almenningsfles, bilaði vélin í bátnum sem dregið hafði. Þá var það tekið til bragðs að slá undan og tókst að sigla í var inni á Brúnavík og gerða við bilunina til bráðabirgða.
Reynt var að leggjast við akker, en þar sem veðurhæðin fór vaxandi, tókst ekki að hemja bátana og rak þá hinn vélarvana upp í klappir norðan víkurinnar. Bjargaðist sá eini maður sem í honum var þar í land, en áður hafði annar bátsverja farið yfir í hinn bátinn. Hvarf þessi bátur þarna sjónum manna og sást ekki aftur.
Veður fór versnandi og skömmmu síðar kom enn gangtruflun í vél þess báts er enn var ofansjávar og rak hann út með ströndinni. Samt tókst að ná landi í síðasta viki í klappirnar norðan víkurinnar áður en komið var út undir svonefnt Brúnavíkurbjarg, en þaðan er ógengt með öllu við slíkar aðstæður er þarna voru.
Engin byggð var þarna og varð að ráði að einn bátsverjanna, Ingi Jónsson, héldi til byggða og léti vita hvernig komið væri. Varð hann að fara yfir allhátt skarð, Brúnavíkurskarð, á leið sinni til byggða. Efst í því var svo mikið harðfenni að hann gat ekki fótað sig í óveðrinu og varð að skríða yfir skarðið.
Þegar bátarnir komu ekki til Bakkagerðis á eðlilegum tíma, var tekið að óttast um afdrif þeirra og haft var samband við Slysavarnarfélag Íslands og beðið um aðstoð. Lét félagið kalla upp báta og skip fyrir Austurlandi, en í ljós kom að engin voru nærri þeim slóðum sem bátarnir voru á. Varðskipið Ægir hélt því þegar af stað til leitar, en átti langa siglingu á staðinn.
Frá Borgarfirði var gerður út leiðangur inn í Brúnavík, en menn óttuðust að bátarnir hefðu farist þar. Á leiðinni þangað mættu leiðangursmenn Inga og var síðan farið hinum mönnunum til aðstoðar. Þegar í Brúnavík kom, voru þeir rétt að leggja af stað á skarðið. Sóttist ferðin til Borgarfjarðar allvel og voru allir komnir heim laust eftir miðnættið.
Þeir sem í hrakningunum lentu, auk Inga Jónssonar, voru þeir Ólafur Ágústsson, Vigfús Helgason og Georg Nilsen, allir frá Bakkagerði. Trillubátarnir voru báðir um 2 tonn að stærð. Annar þeirra var í eigu Kaupfélagsins á Borgarfirði, en hinn í eigu kaupfélagsstjórans. Bátarnir urðu með öllu ónýtir, en vélinni úr öðrum tókst að bjarga.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:44 | Facebook
Athugasemdir
Virkilega gaman að rifja þessa sögu upp. Mér var sögð hún þegar ég var krakki, en hún var löööngu horfin úr minninu. Skrýtið til þess að hugsa að pabbi, Fúsi, Ingi og Goggi hafi verið saman í þessari svaðilför og allir sloppið, þótt ekki hafi liðið mörg ár þangað til Ingi heitinn fórst á sjó.
Kv. Guðný.
________________________________________________________, 5.10.2009 kl. 10:47
Það fer hálfgerður hrollur um mann við lesturinn á þessu. Engir farsímar eða annað sem við hreyfum okkur ekki án, í farteskinu þarna. Bara alvöru karlar! Kv. Fjóla Ásg.
________________________________________________________, 6.10.2009 kl. 19:55
jiminn já.. maður fær sko hroll! Þetta hafa sko ekki verið neinir eymingjar þarna. Kv. Magga Á.
________________________________________________________, 8.10.2009 kl. 10:29
Ef ég man rétt það sem pabbi sagði mér, þá var hann í frystihúsinu að hlusta á talstöðina hjá varðskipinu. Og varðskipsmenn sögðu að engin bátur gæti verið ofansjávar í þessu veðri. Og með það var farið í hátinn.
Nöturlegt öruglega.
Kveðja Óli Stef.
________________________________________________________, 8.10.2009 kl. 21:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.