29.12.2006 | 18:30
Helga amma í Jörfa á afmæli í dag.
29. desember er afmælisdagur Helgu mömmu, ömmu og langömmu okkar í Jörfa. Í dag hefði hún orðið 87 ára og ég minnist hennar með mikilli virðingu og þakklæti. Ég hef reynt í gegn um árin að hafa hana sem fyrirmynd í mörgu því sem ég hef tekið mér fyrir hendur en það hefur mér reynst erfitt þar sem ég hef ekki þann sterka persónuleika til að bera sem hún hafði. Gleði, umburðalyndi, ástúð, vinnusemi, umhyggju, trygglyndi og endalausa þolinmæði hef ég því því miður ekki til að bera, nema að litlu leiti, en þetta hafði hún allt og gaf ríkulega af sér allar stundir svo um var talað. Þetta kann að þykja væmið en allir sem til hennar ömmu minnar þekktu vita að frekar er úr dregið en í lagt.
Ég lít á það sem forréttindi að hafa fengið að alast upp hjá Helgu í Jörfa og tel mig ríkari fyrir vikið. Ég vil taka orð Ingu frænku (eldri) mér í munn þegar hún var að rifja upp hvað amma Helga var ung þegar hún dó, og hafa verið notuð áður á þessum vettvangi: "Það var nú meiri óþarfinn...."
Blessuð sé minning hennar.
Óli Ara.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Falleg orð Óli, sem ég tek undir. Mamma mátti ekkert aumt sjá og var einstaklega lagin við að koma auga á það góða í öllum, sama hver átti í hlut. Mér fannst nokkuð táknrænt það sem Jón Óskar (fóstursonur Helga í Laufási) sagði þegar honum var sagt að Helga í Jörfa væri dáin: "Já, en hver á þá að gefa mér kleinu?"
Við vorum í matarboði í Þrastarhóli í gærkvöldi og þar skáluðum við fyrir mömmu í tilefni dagsins!
Kv. Guðný.
________________________________________________________, 30.12.2006 kl. 17:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.