19.9.2009 | 20:13
Sjómannadagurinn á Borgarfirði árið 1990
Sæl öll!
Okkur áskotnaðist þessi skemmtilega ræða sem var flutt þegar pabbi var heiðraður á sjómannadaginn, líklega árið 1990. Það var Ásta Geirs. sem sendi mér þetta, en mamma hennar varðveitti þessa ræðu.
Kv.Gústi
---------------------------------------------
Óli Gústa heiðraður á sjómannadag.
Það má heita fastur liður í sjómannadagshaldi víða um land, að aldraðir sjómenn eru heiðraðir og þeim þökkuð löng og farsæl störf. Í dag ætlum við að heiðra þann sveitunga okkar, sem einna lengst af Borgfirðingum hefur stunda sjómennsku og byggt afkomu sína af þeim afla sem hann hefur sótt í greipar Ægis. Þessi sjómaður er Ólafur Ágústsson í Jörfa, best þekktur meðal sveitunganna sem Óli Gústa.
Í þessu áhættusama og erfiða starfi hefur hann verið farsæll og heppinn. Og nú þegar hann hefur kvatt Ægisdætur fyrir fullt og allt og lætur hugann reika til liðins tíma, þá getur hann verið forsjóninni þakklátur fyrir það, hve hún hefur verndað hann fyrir hvers konar slysum og áföllum sem svo oft henda þá sem sjóinn sækja.
Ólafur Ágústsson er fæddur 7.september 1912, sonur hjónanna Margrétar Stefánsdóttur og Ágústs Ólafssonar. Margét móðir Óla var dóttir Stefáns Jónssonar í Úraníu og Þuríðar Guðmundsdóttur, en Ágúst faðir hans var sonur hjónanna Ólafs Bergssonar kennara og hagyrðings og Guðrúnar Guðmundsdóttur. Óli var eini sonur hjónanna Margrétar og Ágústs, en dæturnar voru fjórar og eru þær allar látnar.
Margrét móðir Óla dó 1917 þrítug að aldri, þá var hann 5 ára gamall. Eftir það ólst hann upp hjá föður sínum og Guðrúnu ömmu sinni. Guðrún amma Óla dó 1936 þá komin yfir áttrætt. Eftir það bjuggu þeir feðgar saman næstu árin. Ágúst dó árið 1944.
Árið 1943 gekk Óli að eiga Helgu Sesselju, dóttur hjónanna Bergrúnar Árnadóttur og Jóhanns Helgasonar sem þá bjuggu á Ósi. Þau eignuðust sjö börn sem öll eru á lífi og hinir nýtustu þjóðfélagsþegnar. Konu sína missti Óli í ágúst 1982 og hefur síðan búið einn, en hann á marga vini og kunningja sem hafa gaman af að líta inn og rabba við hann. Jafnvinsæll maður og Óli Gústa, verður ávallt talinn ríkur, þó sá auður verði ekki talinn í krónum.
Snemma beygist krókurinn til þess sem verða vill segir gamall málsháttur. Frá bernsku var hugur Óla bundinn sjónum og á níunda ári var hann, þegar hann fór í sinn fyrsta róður og þá með Færeyingi sem hét Salómon Gregerson, en margir Færeyingar réru hér á þeim árum. Að sögn Óla var afli hans lítill í það skifti, en sjóveikin þeim mun meiri. Sumarið sem hann var 10 ára fór hann nokkra róðra með föður sínum og Arnóri Árnasyni, þá setti hann einu sinni í stóran fisk sem hann réði ekki við og ekki gaf sjóveikin heldur nokkur grið svo hann hélt í föður sinn til hjálpar, en þá glotti karl og mælti Fórstu ekki á sjóinn til að draga? og fiskinn innbyrti Óli. Áfram var haldið næstu árin, róið með Sveini Gíslasyni á Bakka, Haraldi Ingvarssyni á Lindarbakka og nokkur sumur réri hann með Hjallhóls-bræðrum.
Árið 1932 og 1934 réri Óli norður í Hrísey á 8 tonna bát. Á sumardaginn fyrsta, annað árið sem Óli var í Hrísey hreppu þeir aftakaveður á Grímseyjarsundi, þar sem þeir voru að draga línuna. Stærri bátar flýðu í land frá ódregnum línum sínum, en Óli og félagar hans þraukuðu uns dregin var línan og telur hann þetta mesta veður er hann lenti í á allri sinni sjómannstíð. Farið var að óttast um þá félaga, en landi náðu þeir slysalaust með góðan afla.
Fyrsta bát sinn eignaðist Óli 1940. Það var tveggja tonna trilla, svokallaður færeyingur, frá Vopnafirði, hlaut hann nafnið Sæljónið. Bátinn átti hann í 3 ár, fær sér þá annan af sömu stærð og gerð, hét hann líka Sæljónið. Upp úr 1950 eignast Óli bátinn Eystein og loks Báruna 1969. Í síðasta róðurinn sinn fór Óli fyrir þremur árum, þá hálf áttræður.
Hér hefur löng og happasæl sjómannssaga verið sögð í fáum orðum. Nú er þessi aldni heiðursmaður sestur í helgan stein, ánægður með hlutskifti sitt í lífinu og þó svo ungur í anda að enn á hann það til að bregða sér út á dansgólfið með einhverja dömuna í fanginu, þegar hann heyrir fjöruga harmonikku-músik.
Vinir hans óska honum til hamingju með daginn og þakka honum margar góðar samverustundir.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:26 | Facebook
Athugasemdir
Mér finnst frábært að hún Ásta frænka okkar hafi fundið þessa grein og sent okkur. Þetta er frábær heimild og gaman að lesa.
Takk kæra frænka!
Guðný.
________________________________________________________, 20.9.2009 kl. 01:11
Takk fyrir þetta. Stórgaman að lesa þetta. Og Báran á sjó 1969 - það er í fersku minni, mér finnst ekki langt síða.
Kv. Fjóla Ásg
________________________________________________________, 20.9.2009 kl. 14:18
Mikið var þetta skemmtileg lesning - takk, takk. Kv. Magga Á.
________________________________________________________, 21.9.2009 kl. 09:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.