10.8.2009 | 16:51
Takk fyrir komuna!
Fiskisúpukvöldið mikla tókst með miklum ágætum. Um 700 manns borðuðu súpu hérna hjá okkur í Ásvegi 1, sirka 90 lítra af dýrindis fiskisúpu. Það voru margir höfðingjar á ferðinni, s.s. Sveinn og Geira, Gummi Sveinn, Gestur, Addi Magg og fylgifiskar, Helga Björg og Kári, Tóta frænka og Doddi, Grétar frændi í Vinaminni svo einhverjir séu taldir. Gústi og tökuliðið hans fengu að koma inn bakdyramegin, ekki hægt að láta vinnandi fólk standa í biðröð!
Það er ekki nokkur leið að taka á móti svona mörgu fólki nema með aðstoð góðra manna og vil ég hér með þakka þeim fyrir alla aðstoðina. Skúli aðstoðarkokkur og Linda rækjudrottning Hafnfirðingar, Stjáni gítarleikari og Lára ræstitæknir Hólmvíkingar, Geiri harmonikkuleikari og Gunna systir hjálparhönd og Magga litla frænka súpuskammtari stóðu sig öll eins og hetjur. Allt miklir snillingar og vonast ég til að sjá þau öll að ári, í fantaformi fyrir súpukvöldið. Auk þeirra voru allir notaðir sem hægt var að nýta til aðstoðar, enda allir boðnir og búnir.
Það verður sko boðið upp á súpu hér aftur 2010, ef þú misstir af henni í ár! Eins og sjá má á myndinni hérna neðan við, var biðröð yfir götuna allan tímann frá því kveikt var á kyndlunum og þar til öll súpa var búin.
Takk fyrir hjálpina, aðstoðarmenn og komuna, gestir!
Guðný og Siggi.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.