16.12.2006 | 12:13
Jólarjúpan
Jæja, nú er jólarjúpan komin í hús og bíður þess í frystinum að verða afklædd og hanteruð eftir uppskrift frá kokknum. En hvaða kokki? Það eru margir misgóðir "meistarakokkar" í Jörfaliðinu, enda matur og mikil matarlyst í genunum okkar. Nú langar mig til að fá uppástungur um hvernig best væri að matreiða jólarjúpuna í ár. Við erum afar opin fyrir nýjungum og langar að prófa eitthvað nýtt, ég er löngu búin að uppgötva að rjúpa er alltaf rjúpa þótt við notum ekki alltaf uppskriftina hennar mömmu (sem er nú samt best!)
Hvað er annars í jólamatinn hjá ykkur?
Óli Gústa, hvað myndir þú t.d. gera við rjúpuna?
Kveðja úr kortastöflunum,
Guðný.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Ég held ákaflega fast í hefðir þegar kemur að jólarjúpunni, eins og reyndar svo margt sem tilheyrir jólunum. Hér er alltaf rjúpa á borðum á aðfangadagskvöld og aldrei þess utan. Við erum svo fastheldin á þetta að við smökkum t.d. aldrei rjúpu á jólahlaðborðum!
Ég tek rjúpuna úr frysti á Þorláksmessu (ef hún er ekki þegar hangandi ófrosin) hamfletti hana alltaf fljótlega eftir hádegi á aðfangadag og er að dunda við hana fram undir fjögur. Krydda hana með salti og pipar, heilsteiki á pönnu og sýð með einiberjum í potti. Sama gamla aðferðin og engar tilraunir! Sósuna baka ég svo upp úr soðinu og smakka til með rifsberjasultu.
Óli spurði pabba sinn varfærnislega um daginn, hvort hann mætti gera sósuna í ár og fékk leyfi til þess! Lengra fær hann ekki að seilast í jólarjúpuna......allavega ekki ennþá.
Kv. Gústi jólabarn.
Ps. Svo er tilvalið, á meðan verið er að nostra við jólamatinn, að hlusta á þáttinn "Minningar jólanna" á Rás1 kl. 15 á aðfangadag. Þar ræði ég við fólk á Austurlandi um jólin í "gamla daga" o.fl.
________________________________________________________, 16.12.2006 kl. 13:24
Svona var þetta "a la mamma" árlega hjá okkur í allmörg ár......þangað til að Siggi fór að skipta sér af. Hann fór að leika sér með rjúpuna! Úrbeinaði rjúpuna (bringurnar), steikti beinin og rest í potti og sauð í góðan klukkutíma í sósuna með einiberjum o.fl. Bringurnar léttsteikti hann svo. Þetta var náttúrulega algjör glannagangur, en reyndar líka rosalega gott, og ég var lengi vel ekki alveg á því að gefa mig með mömmurjúpurnar, svo við gerðum samning. Siggi fær að ráða önnur hver jól, ég hin. Svo er alltaf létt þræta um hvort okkar fékk að ráða árið áður! T.d. man ég ekkert hvort ég réði í fyrra.......þetta fór allt í rugl með rjúpnalausu jólunum! En auðvitað er maður bara ein stór "hebbð" þegar kemur að jólunum.
Takk fyrir að láta vita af Minningum jólanna, ég hlusta pottþétt...með rjúpnailminn í nösunum....mmmmmmm....gvöð hvað ég hlakka til!!
Kv. Guðný litla.
________________________________________________________, 16.12.2006 kl. 16:49
Guðný, Það er alger snilld að grafa 2, 3 bringur eftir eigin höfði og nasla í óformlegan forrétt meðan verið er að elda.. Ég handera svartfuglinn með salti, pipar, soja, og snarpheitri pönnu sem allra styst, það hlýtur að vera gott með rjúpuna líka. Hún sér náttúrulega sjálf um að krydda sig þessi elska. Við ætlum að vera með hreindýr og rjúpu, tvíréttað. Bilun.
________________________________________________________, 16.12.2006 kl. 17:31
Í fyrra grillaði ég rjúpur á aðventunni, það var rosa gott. Nú er stefnan sett á gamla steikt og soðið systemið. Nema ég er að spá í að reyta og svíða nokkrar púddur og ofnsteikja. Bara til að prufa.
Og svo er auðvitað silungur í forrétt, mín eigin pródúsjón af reyktum og gröfnum. Nóg til ef einhver vill ná sér í flak.
Kveðja - Óli Stef.
________________________________________________________, 16.12.2006 kl. 17:41
Óli, komdu við í Gartenstrasse með flak... getur þá séð flottu hillurnar mínar sem fóru upp í eldhúsinu um helgina
Ása
________________________________________________________, 18.12.2006 kl. 11:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.