16.3.2009 | 16:08
Fréttapóstur úr Akraseli.
Mikið finnst mér Jörfaliðar vera uppteknir af Fésbókinni. Hér á blogginu er algjör deyfð og ætla ég að bæta úr því. Ég skora á alla að birta fréttir af sér og sínum hér, það er síðan hægt að varpa þeim yfir á Fésbókina.
Af okkur er allt gott að frétta. Reyndar var mikil sorg á heimilinu um helgina þegar dverghamsturinn hans Ýmis dó (loksins). Hún Perla var búin að sýna mikil elliglöp undanfarnar vikur og vissum við að hverju stefndi. Þegar hún þvoði á sér trýnið þá missti hún alltaf jafnvægið og datt (þvo - detta - rísaupp - þvo - detta - rísaupp - þvo - detta - rísaupp (svo endurtók hún þetta eftir þörfum)), svo gekk hún út á hlið ! Núna er hún í frysti og bíður þess að það vori svo hægt verði að jarðsetja hana við hlið eiginmansins (sem hún drap reyndar). Það er eins gott að ég taki ekki feil næst þegar ég tek til matinn !
Við höfum verið með studio íbúðina í kjallaranum í útleigu frá því við fluttum í Akraselið. Skúli hefur verið í okkar herbergi og við Sigrún í minnsta herberginu í húsinu. Nú um mánaðarmótin sagði leigjandinn upp og ákváðum við að nota húsnæðið sjálf í framtíðinni. Skúli flutti svo með viðhöfn um helgina, eftir að búið var að mála og kaupa inn húsgögn. Meðal annars var keyptur svefnsófi þannig að nú þarf Gústi ekki lengur að sofa á þunnri dýnu í Safninu. Við fluttum svo í herbergið "okkar" og erum við búin að útbúa skrifstofu í litla herberginu. Ég er búinn að setja upp ágæta aðstöðu í bílskúrnum og er að dunda mér þar við að gera við hljóðfæri þegar tími gefst til.
Ýmir var svo heppinn að fá pláss í sumarbúðum fyrir 11 ára börn á vegum CISV en það eru alþjóðleg samtök sem standa fyrir sumarbúðum fyrir börn og unglinga vítt og breitt um heiminn (sjá www.cisv.org). Samtökin senda marga hópa ár hvert til ýmissa landa en í hverjum hóp eru tveir strákar, tvær stelpur og einn fararstjóri/umsjónarmaður. Ýmir var reyndar extra heppinn því að hann var valinn í hópinn sem fer til Noregs og verður þar allan júlímánuð í stífu skemmtiprógrammi:)
Það er mikil tilhlökkun í gangi og allt að komast á fullt í undirbúningi. Hver hópur fyrir sig hittist t.d. reglulega til að undirbúa ferðina og dvölina, meðal annars með því að búa til ýmiss konar kynningarefni á landi og þjóð til að kynna fyrir erlendu hópunum í sumarbúðunum. Á þennan hátt nær hópurinn líka að kynnast betur innbyrðis áður en haldið er út í hið stóra ævintýri. Í framhaldi af sumarbúðardvölinni þá ætlum við fjölskyldan að hitta Ými úti og eyða a.m.k. hálfum mánuði með Helgu og kó.
Ýmir einnig í lúðrasveitinni, spilar og spilar á trompet.
Skúli er á kafi í FB og er kominn í Gettu betur hópinn. Hver veit nema að hann birtist á skjánum næsta vetur.
Sem sagt; allir kátir í Akraseli og ekki fleiri fréttir þaðan.
Kveðja til ykkar allra.
Akraselir.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:22 | Facebook
Athugasemdir
Þetta var skemmtileg lesning frá ykkur og gott að allir eru hressir.
Knús í Akraselið.
Gústi gefur kanski næstu skýrslu.
Gúst og Magga (IP-tala skráð) 16.3.2009 kl. 18:09
Gaman að þessu Akraselir! Já, ég er alveg sammála þessu með bloggdeyfðina, það stóð aldrei til að Jörfabloggið myndi gjalda fyrir feisbókaráhugann, það eru svo margir með þessa síðu okkar á "bloggrúntinum" hjá sér að við verðum að hafa gott lífsmark hérna.
Leitt að heyra með hana Perlu, en hún hefur trúlega verið hvíldinni fegin - farin að ganga út á hlið eins og krabbi, það hlýtur að vera niðurlægjandi fyrir virðulega dverghamstraekkju!
Ýmir, til hamingju með að komast í þennan sumarbúðahóp, þetta verður örugglega frábært!
Ég held ég eigi von á gestum á fimmtudag, Ása Björk og Eyvindur hafa boðað komu sína hingað í winter wonderland og því er búið að taka gestahúsið í gegn og kaupa nýja dýnu í kojuna! Gestahúsið er annars laust til bókunar í sumar, fyrstur kemur, fyrstur fær! ;0)
Kveðja, Guðný.
________________________________________________________, 16.3.2009 kl. 19:53
Já Guðný, við Eyvindur erum ennþá ákveðin í að koma
________________________________________________________, 16.3.2009 kl. 20:57
Best að sýna lit og koma með örfréttir héðan af Brekkubrautinni. Hér eru allir sprækir og enginn í frysti síðan "Mini-My", gullfiskurinn hans Bergþórs dvaldi þar á leið sinni til himna. Síðan eru liðin mörg ár.
Skemmtilegast er auðvitað að segja fréttir af barnabörnunum sem bera af - auðvitað
Ágúst Óðinn varð 15 mánaða á föstudaginn. Hann er ekkert á láta sér liggja á, ekki farinn að labba, tekur nokkur skref og sest svo ofurvarlega á rassinn. Katrín Fjóla fór til tannlæknis í dag og fékk flúorburstun. Aðspurð segist hún ekki ætla aftur til tannlæknis, samt gekk allt vel. Hún væri vís með að bóka gistingu hjá Guðnýju því hún vill alveg endilega fara langt, langt að heimsækja Dag og Ídu. Magga hefur ekki verið nefnd í því sambandi.
Meira síðar, takk Akraselir, fyrir að rumska við okkur.
Fjóla Ásg
________________________________________________________, 16.3.2009 kl. 21:08
Í morgun frétti ég hjá nöfnu minni að ,,dórir drákar" væru væru ,,alltaf að kasta njó". Það hefur greinilega fátt breyst síðan amma var ung
. Kv. Fjóla Ásg
________________________________________________________, 17.3.2009 kl. 11:28
ég verð greinilega að fara að fá mér þessa fjandans fésbók er bara algjörlega dottin út .Hjá mér er bara allt gott að frétta fékk mér smá aukavinnu og hef lítið komið heim síðan ,Nonni minn er kominn inn í Hval til Kristjáns og verður að skapa verðmæri fyrir þjóðarbúið. Eyrún er á fullu í skólanum og að kenna dans,Unnur skrukkast á Akureyri ,Grétar og Arnbjörn blómstra saman feðgarnir. Vona að öllum líði vel kv Helga sess
________________________________________________________, 20.3.2009 kl. 21:10
Sælir allir Jörfaliðar.
Ég er (eins og þeir segja hjá Gallup) mjög sammála Óla frænda Arasyni um að við eigum að rækta síðuna okkar eins og við höfum þrek til. Ég skal játa að ég er ekki sá duglegasti í fréttum af mínum armi, sjálfsagt ætlast ég til að aðrir sjái um það. Þó fer ég daglega inn á síðuna og kíki eftir nýjum fréttum skoða myndaalbúm og myndir, les heimasíður osfrv. Að lokum eins eins og sagt er í kosningabaráttunni: Segjum já við jörfabloggi
Bestu kveðjur frá Brekkutorfunni
Stebbi bró.
Stefán Ólafsson (IP-tala skráð) 22.3.2009 kl. 22:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.