11.4.2008 | 14:33
Hvað ert þú að gera ??
Í Stykkishólmi er gefinn út pési sem heitir Stykkishólmspósturinn. Þar er fastur dálkur sem heitir "Áskorandinn". Í nýjasta tölublaðinu var viðtal við einn Jörfalinginn. Gefum honum orðið:
Hvað ert þú búinn að vera að gera í Danmörku? Þessa spurningu fæ ég oft þegar ég er heima, stundum frá fólki sem ég varla þekki og vissi ekki að þekkti mig... Fyrir þá sem ekki vita hver ég er þá heiti ég Sigurður Grétar, og er ég sonur Jónasar, á Gullhólmanum og Ingu á spító. Nú er ég búinn að vera í Danmörku í eitt og hálft ár. Ég var einn af þeim sem þoldi ekki dönsku, og skildi ekki tilganginn í að læra hana. En tímarnir breytast víst, og eftir að hafa heyrt margt gott um lýðháskóla ákvað ég að skella mér til Danmerkur. Það er ákvörðun sem ég sé ekki eftir! Ég fór út í ágúst 2006 og ætlaði að vera fram að jólum. Skólinn sem ég valdi heitir Uldum højskole (uldum-hojskole.dk), og er í 1100 manna bæ rétt hjá Vejle á Jótlandi. Þegar ég kom talaði ég enga dönsku, en komst fljótt að því að við vorum 7 Íslendingar, sem gerði þetta auðveldara. Skólinn hafði enga sérstaka linje sem þýðir að maður gat valið mjög mismunandi fög. Ég talaði bara ensku, þannig að ég þurfti að velja fög eftir því. Byrjaði á að taka allt sem tengdist tónlist, hljómsveit, kór, stúdíó, og svo dönsku og film (horfa á bíómynd einu sinni í viku!), sem þýddi að ég komst upp með að tala enga dönsku! En ég þyki nú frekar fljótur að byrja að röfla eitthvað í fólki, þannig að ég var fljótt búinn að eignast fullt af dönskum vinum sem nenntu að tala ensku við mig. Eftir u.þ.b. einn og hálfan mánuð ákváðu þessir vinir mínir að hætta að tala ensku við mig og tala bara dönsku. Ég varð frekar fúll við þau, en mánuði seinna var ég allt í einu byrjaður að tala dönsku! Þetta gerði lífið mun aðveldara, og ég gat valið þau fög sem ég vildi, án þess að þurfa að hugsa um dönskuna. Ég ákvað meira að segja að fara með hóp úr skólanum til Tanzaníu, þar sem skólinn er búinn að byggja skóla fyrir krakka sem litið er á sem frávik í bænum sem þau búa í. Áður fyrr voru þessir krakkar læstir inni í kofa eða búri á meðan foreldrarnir voru að vinna, og fengu ekki að fara út, vegna þess að litið var á þau sem refsingu frá guði. Þessu hefur einn af kennurunum í Uldum breytt. Fyrir 5 árum var hann í þessum bæ og spurði bæjarstjórann hversu margir í bænum hefðu einhverja fötlun, og var svarið að það væri enginn! Nú eru um 15-20 krakkar í skólanum sem hefur verið byggður frá grunni fyrir peninga sem hafa safnast á uppboðum nemenda á barnum í Uldum højskole! Ég fór til Tanzaníu í byrjun janúar og var í einn mánuð. Síðan ætlaði ég að vera mánuð í viðbót í Uldum, en það breyttist og ég fór heim í maí. Á þeim tíma gat ég tekið fög sem ég treysti mér ekki í þegar ég byrjaði, og þegar ég fór heim var ég t.d. búinn að vera í kór, hljómsveitum, hljóðveri, pólitík, pædagogik, musikledelse (þessi seinustu tvö gáfu mér svo meðmæli til að sækja um á leikskóla), matreiðslu, draumalesningu, jóga/hugleiðslu, sálfræði, blaki, fótbolta, og turnereband, þar sem við æfðum um 30 lög og fórum svo í viku ferðalag þar sem við spiluðum svo í öðrum lýðháskólum og í tvennum fangelsum, sem var mjög gaman. Því fagi lauk svo á gamle eleve weekend þar sem um 200 gamlir nemendur úr skólanum komu til Uldum yfir helgi og hittu gamla félaga. Þessi helgi var seinasta helgin mín í skólanum. Þessir 9 mánuðir sem ég var í Uldum voru eitthvað sem ég bjóst aldrei við að upplifa þegar ég var sofandi í dönskutíma hjá Jenný í denn! Nú bý ég í Kaupmannahöfn og vinn sem supervisor hjá Museum selskabet sem rekur Guinness world records og Ripley's belive it or not! söfnin á strikinu og ég kann bara nokkuð vel við mig hérna, en heima er best! vh. Sigurður Grétar
Það er gaman að fylgjast með Sigurði Grétari. Bestu kveðjur að heiman. En..... hvað ert þú að gera ???????
ÓA.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:50 | Facebook
Athugasemdir
Flottur strákur
Kv -Ása Björk
________________________________________________________, 11.4.2008 kl. 16:03
Ég þoldi dönsku vel, fannst gaman í dönskutímum skólanum, en það hjálpaði mér ekkert þegar ég kom til Danmerkur
Verst að hafa aldrei stoppað þar nema örstutt. Danskan er sem sagt enn í lamasessi. Sigurður Grétar, þú kannski verður með námskeið á ættarmótinu? Kv. Fjóla
________________________________________________________, 11.4.2008 kl. 16:31
Sigurður Grétar er bara flottur strákur! Mátti til með að lauma þessari mynd inn í bloggið - tekin á góðri stundu í Gamlanum sl. sumar.
Var að tala við Ollu frænku Jóhannsdóttur, hressa að vanda. Sagðist vera orðin 85 ára og léleg við ferðalög, erindið hennar var að þakka fyrir boðskort í fermingu og afboða sig. En hún kvaddi með því að segja: "En við sjáumst nú á ættarmóti í sumar!"
Ok, hvaða afsökun hefur ÞÚ fyrir því að mæta ekki?
kv. Guðný
________________________________________________________, 11.4.2008 kl. 18:54
Hef enga afsökun og mæti. Dagur þakkar góðar afmæliskveðjur hér í fyrra bloggi en Magga og Atli hafa hins vegar heitið því að halda aldrei aftur afmælisveislu með 19 stk. 10 og 11 ára boðsgestum. Sigurður Grétar..... danska er víst skemmtileg!!! Mojn... Magga.
________________________________________________________, 12.4.2008 kl. 23:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.