Úr því að Guðný er að biðja um nýlegar upplýsingar...

 ...þá langar mig að setja hér inn gamlar upplýsingar í staðinn.

Ég hef, væntanlega líkt og flestir aðrir sem kynnst hafa, velt því fyrir mér  af hverju við í Jörfaliðinu erum eins og raun ber mjög glöggt vitni um. Ég hef loks fundið svar og er það hér fyrir neðan:

"Árni hét maðr Bjarnason, Grímsonar smiðs í Viðvík, hann bjó í Keldunesi norðr, hann var bróðir Ingibjargar, konu Jóns prests Gíslasonar í Saurbæ, og gat hann barn við þeirri konu, er Kristín hét Halldórsdóttir, og var systir konu hans,en af því at líf lá við, ok annar maður fékkst til að játa faðernið, þá gekk sá undir; fékk Halldór sýslumaður grun, ok gekk fast á Árna; hann neitti fyrst, þar til sýslumaður hét hönum frelsi, þá meðgekk hann, ok reið síðan með hönum viljugr til þíngs; var þing fjölmennt, ok mörg stórmæli...."

Svo ritar Espólín í VIII deild Íslands Árbóka útgefin árið 1829.

Skemst er frá því að segja að Árni þessi var leiddur í Lögréttu og spurður um faðerni barns þessa. Hann bað um frest til næsta dags og var hann honum veittur og er tekið er fram í annálum að hann fékk að ganga laus.

Morguninn eftir[...]"kom hann at ákvedinni stundu, ok kvaðst vera með sönnu fadir; þá buðu sumir yfirmenn hönum, at mæla fyrir hann við konúng, en hann neitti því, ok kvadst heldr vilja deyja fyrir synd sína enn lifa, mælti hann þat með allri stillingu ok óklökkvandi, ok furdadi menn hugprýdi hans."

Aðrir annálar m.a. Mælifellsannáll segja reyndar að hann hafi þegar þingmenn buðu honum að taka málið upp við kóng mælt ódauðleg orð: "Hafi eg med synd minni lífid forbrotid, skal eg á lífinu straffast" Það er miklu flottara og skal haft fyrir satt hér eftir.

En áfram heldur saga Espólín..."Þriggja bæna mun eg beida, sagði hann: er þat fyrst að eg sé frjáls og járnalaus, mun ek ei um hlaupast; þat annat, at snaudir menn fái klædi mín, en eigi bödullinn; ok hid þriðja, at líkami minn fái leg at kyrkju; var hönum því heitid; síðan gekk hann af lögréttu at heyrdum dómi, ok lagði sig á höggstökkinn, ok vard vid sem bezt, ok fannst mönnum mikid um. "

Þannig endar saga Árna Grímssonar. Þetta hlýtur að teljast hin fullkomna útganga, æðruleysið og karlmannleg viðbrögð við örlögum þeim sem honum eru ráðin af Stóradómi, eru til eftirbreytni.

Stundum er sagt að hlutur kvenna í íslandssögunni sé rýr, en hér koma lokaorð frásagnar Jóns Espólín:  "Kristín, barnsmódir hans, var ei þíngfær, ok var henni drekkt seinna í héradi."

Margir voru höggnir og mörgum drekkt á þessu eina þingi árið 1705. Tveim stúlkum um tvítugt var t.d. drekkt fyrir barnsgetnað með mun eldri mönnum, og getur maður bara ímyndað sér hvernig sá getnaður kom til. En réttlæti þessa tíma var víst fullnægt.

Einnig var auglýstur héraðsdómur......."um þann stórilla kynnta þjóf Jón Þórarinsson".....Nú til dags eigum við sem betur fer bara stórvel kynnta þjófa eins og Lalla Johns!

En aftur að Árna sáluga. Áður en þessi ósköp dundu yfir átti hann börn með konu sinni. Árið 1701 fæddist honum sonurinn Arngrímur, sem eignaðist dótturina Þorbjörgu árið 1731. Hún átti soninn Jón Vigfússon árið 1760 sem árið 1804 eignaðist Víglund. Sonur hans var Bergur fæddur árið 1826 og hans sonur var Ólafur Júlíus fæddur árið  1854. 1880 fæddist Ólafi sonurinn Ágúst Ólafsson sem árið 1912 eignaðist Ólaf. Hann eignaðist Stefán árið 1942 og árið 1970 eignaðist hann, þann sem hér ritar.

Árni Bjarnason, Grímsonar smiðs var sem sagt langa, langa, langa, langa, langa, langa, langaafi minn, því sem næst í beinann karllegg. Einhverra hluta vegna finn ég samt fyrir miklum skyldleika við hann. Líklega er það aðeins óskhyggja enda er atitjútið hjá honum; úr því að þið viljið drepa mig þá skuluð þið bara gera það, það er ykkar tjón. Það er dáldið kúl. Kannski eru líkindi með þessu og og því, þegar Þorgeir hékk í graðhvannarnjólanum í Hornbjargi og reiddist lífgjafa sínum. Það var líka kúl. Hugsanlega hefur Árni metið stöðuna þannig að jafnvel þó málinu yrði skotið til konungs þá yrði niðurstaðan hin sama, þess vegna væri betra að ljúka þessu af strax með reisn. Það tókst og er saga þessa óbreytta bónda sem annars væri öllum gleymdur, skráð í marga annála, og einhver afkomandi hans er að velta þessu fyrir sér rúmun þrjúhundruð árum síðar. Annar möguleiki er að hann hafi verið túradrykkjumaður kominn á 10. dag og því ekki vitað hvað hann sagði eða gerði. Ég vona þó ekki, þá færi glansinn af þessu. Hafa skal það sem betur hljómar

Ég geri mér reyndar grein fyrir því að níu ættliðir gera það að verkum að nokkrir tugir eða hundruð annara forfeðra "spilla" verulega hetjugeninu sem ég var að vona að ég hefði erft frá Árna afa. Svona gen hlýtur að geta fleytt hverjum sem er til æðstu metorða, ef það kemur ekki viðkomandi lóðbeint í gröfina eins og ofangreind saga vitnar um.

Með kveðju úr Borgarfirði syðri

JFS


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: ________________________________________________________

Jói, ég vil alls ekki höggva af þér hausinn, er ekki fylgjandi dauðarefsingum - nema kannski ef einhver gerir mér eða mínum eitthvað  Kv. Fjóla Ásg.

________________________________________________________, 28.3.2008 kl. 14:28

2 Smámynd: ________________________________________________________

Þetta finnst mér kúl!  Kv-Ása Björk

________________________________________________________, 28.3.2008 kl. 16:01

3 Smámynd: ________________________________________________________

Já og Fjóla, ég gleymdi að segja að þú verður að gera þarna ákveðin greinamun á hetjudauða og dauðarefsingu sjáðu til....

En það er alveg bullandi feminismi í þessu hjá þér Jói minn, gott hjá þér að minnast á hlut konunar í málinu En svona í alvöru talað þá vekur þetta hálfgerðan óhug hjá manni þegar maður leiðir hugan að stöðu kvenna í mörgum ríkjum heims í dag. Það hefur kannski ekki mikið áorkast síðan árið 1705 - Kveðja og góða helgi,  Ása Björk

________________________________________________________, 28.3.2008 kl. 16:25

4 identicon

Þetta er einfaldlega ekki til lengur. Hetjugenið er dautt, það hvarf þegar við fluttum úr torfinu, hófum að eta óskemmdan mat og giftast óskyldum.

En Árni var sönn hetja, um það er engum blöðum að fletta.

HHS

HHS (IP-tala skráð) 28.3.2008 kl. 18:44

5 Smámynd: ________________________________________________________

Jói, nú  skil ég betur ákveðna hluti....magnað að sjá þetta, en ég veit ekki hvort þetta fæst samþykkt inn í niðjatalið! Jón Þór frændi sendi mér "Jörfalegginn" og sagði: "Þú færir þetta til nútímans en þó ekki með neinum skáldlegum tilþrifum", veit ekki hvort þetta gengur...

En við fjölskyldan erum í Barcelona - að njóta okkur niður í tær. La bella e vita - lífið er ljúft! Tek niðjatalið taki þegar ég kem heim aftur.  Á morgun er það "hop on, hop off" túr um borgina, búum á Römblunni og erum langt komin með að skanna Gotneska hverfið og annað í göngufæri. Yndislegt veður, íslenskt sumar; hiti 15-25°, fer hækkandi!   

Kveðja, Guðný & gaurarnir allir. 

________________________________________________________, 31.3.2008 kl. 22:28

6 Smámynd: ________________________________________________________

15-25° og fer hækkandi!! Guðný mín, vertu bara áfram á ströndinni. Hér er snjókoma, voða sæt snjókoma að vísu fellur svona hægt til jarðar. Gæti verið sætt í rómantískri jólamynd eftir Dickens, nú eða sorglegri. Og líklega er þetta bara sorgleg snjókoma - það er nú kominn apríl!

Við erum að fara á árshátíð Samherja á laugardaginn líklega fer ég þangað á snjósleða. Unnur Jóns. ætlar að koma hingað og farða okkur frænkur sínar í bak og fyrir svo að við verðum okkur ekki til skammar með varalit útá kinnar, já og Ída Guðrún situr dagana langa og skoðar síðu AFS og þá helst Japan    kannski ég fari bara með henni, er ekki þokkalega snjólaust þar??

Kv. Magga Snjókerling

________________________________________________________, 3.4.2008 kl. 08:39

7 Smámynd: ________________________________________________________

Dettur mér nú í hug síminn sjálfmokandi....Magga syss, ertu í "snjókasti"? kv. Fjóla

________________________________________________________, 3.4.2008 kl. 09:31

8 Smámynd: ________________________________________________________

Fjóla, það er svo mikil þoka að það er örugglega ekkert símasamband..... Kv. Ása Björk

________________________________________________________, 3.4.2008 kl. 10:21

9 identicon

Ansi finnst mér klént að leyfa ekki skáldleg tilþrif í niðjatalið...  var farin að hlakka til að skrifa eitthvað krassandi.

Frændi telur sig kannski hafa einkarétt á skáldaleyfinu, eins og þegar barnsfaðir minn, rannsóknarmaðurinn, breyttist í rannsóknarLÖGREGLUmann í hans meðförum í síðasta niðjatali

Þakka fyrir að þetta árið hefur umræddur barnsfaðir skipt um starfsvettvang og er nú tölvumaður (tölvuLÖGREGLUmaður) !!!!

kv/Sigrún

Akraselir (IP-tala skráð) 5.4.2008 kl. 22:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband