20.8.2006 | 10:58
Ferðalag
Sæl og blessuð. Ég ætla að deila með ykkur gærdeginum - hann var öðruvísi!
Við Magga brunuðum austur í Hólabrekku í fyrrakvöld til að stytta okkur aksturinn í gær. Hólabrekkuhjónin voru í harmonikkuferðalagi - rútuferð, þannig að við höfðum jeppann þeirra til afnota, enda bíllinn minn bilaður (Subaru sem aldrei bilar!!) og Atli á þeirra bíl í Reykjavík. Nú, við skriðum undir dúninn og sváfum eins og englar til morguns, tókum svo daginn snemma og brunuðum austur í Egilsstaði. Begga var vöknuð og búin að hita kaffi handa okkur, svo við stoppuðum þar og tókum hana svo með okkur til Fáskrúðsfjarðar, þangað sem ferðinni var heitið, á jarðarför Skafta Atlasonar, tengdasonar Þóru og Eika. Jarðarförin var afar fjölmenn, okkur sýndist nánast hver einasti Borgfirðingur mættur ásamt fjölda vina og ættingja, alls eitthvað á þriðja hundrað manns! Erfidrykkja á eftir, síðan var aðeins tekið hús á tengdó áður en við brunuðum í Egilsstaði. Við ákváðum að notfæra okkur að vera fararstjórar - kallalausar - og fara gömlu leiðina um Möðrudalsöræfin og kíkja í Fjallakaffi á heimleiðinni. Begga kom með, enda var hún með miða á tónleika (með Möggu Stínu) sem voru þar í gærkvöldi. Í Möðrudal duttum við inní rosalegustu veislu sem haldin hefur verið lengi austan heiða, hluti af Ormsteiti. Fullt, fullt af fólki mætt, mörg tjöld og margir bílar. Í boði var alls kyns heimagerður matur, hangikjöt af misgömlu fé, steikt lamb af öllum stærðum og gerðum ásamt flatbrauði og og og..........VÁ! Begga bauð okkur í mat, dásamleg kona hún Begga! Eftir að hafa kýlt vömbina héldum við áfram í Hólabrekku, renndum við í Jarðböðunum í Mývatnssveit og ákváðum að drífa kallana með okkur þangað fljótlega! Siggi og Hjörvar sóttu mig svo í Hólabrekku um tíuleytið, en við skildum Möggu eftir eina enda Atli og Dagur væntanlegir fljótlega.
Svo mörg voru þau orð.
Hvað segið þið annars? Hvernig voru Danskir dagar í Hólminum? Danskir?? En Írskir dagar á Akranesi? Spænskir?
Kv. Guðný
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Þið hafið heldur betur verið slegið undir nára.
Hér var ekki farið á dönsku dagana. Frétti af Ingu í vöfflubakstri. Írskir dagar löngu gleymdir. Börnin bíða eftir Sálar-balli um helgina. Það væri nú mátulegt á þau að maður brygði undir sig ballfætinum.
Kv. Fjóla
________________________________________________________, 21.8.2006 kl. 21:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.