25.2.2007 | 22:19
Tímabært....
....að blogga smá.
Við hjónakornin ásamt Þresti og Bíbí úr Þrastarhóli vorum í matarklúbb á laugardagskvöldið. Á matseðlinum var eitthvað dularfullt: "Transmettað, reykt, steikt, andaði að sér svifryki í sveit, synti í menguðum sjó,lenti í síðan í höndum á fólki sem stráði allskonar menguðum kryddum yfir. Eldað með ósoneyðandi efni." Þetta reyndist vera áll, og fengum við hann bæði heitreyktan og einnig ferskan, steiktan á pönnu. Mjög sérstakur matur.....
Ída Guðrún er að fara á kostum þessa dagana í Leikhúsinu á Dalvík. Hún er í leiklistarvali í 10. bekk og eru þau búin að æfa og eru að sýna "Þú ert í blóma lífsins, fíflið þitt!" eftir Davíð Þór Jónsson. Ída leikur hana Lillu sem allt snýst um og er að standa sig rosaleg vel í þessu....sem og öðru sem hún tekur sér fyrir hendur!
Það er gaman að skoða snjómyndirnar frá Danmörku á síðunni hans Daníels Skíða. Þetta er greinilega alvöru, held þetta sé meiri snjór en hefur komið hér í allan vetur!
Að lokum smá vísnagáta - svar óskast!
Boðar mönnum messugjörð
mælir daga og stundir.
Vex um heiðar holt og börð,
höfð er pilsum undir.
höf. Ólöf Ó. Briem
Kveðja, Guðný.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Magga! Ekki svara strax..........
________________________________________________________, 25.2.2007 kl. 22:21
Ég er búin að fatta þetta - komin í smá þjálfun. Hvenær má ég svara?
Var Dalvíkurkaffi í matarklúbbnum? Næsta sem ég þarf að gera spennandi í matarmálum er að nota racklett-grill sem hann gamli minn fékk í ellistyrk. Hafið þið eldað á svoleiðis? Þið megið gjarna ausa úr viskubrunninum, ef svo er.
Kv. Fjóla Ásg
________________________________________________________, 26.2.2007 kl. 11:35
Ég veit svarið. Má svara núna ?
ÓA.
P.s. Hvað er málið með skarfana ?
________________________________________________________, 26.2.2007 kl. 14:29
Óli skarfur, Óli skarfur.....
Það má svara á morgun!! Fjóla, racklett-grill, hvað í ósköpunum er það nú?
Kv. Guðný
________________________________________________________, 26.2.2007 kl. 17:31
Klukkan hvað má svara ;-)
Kv. SteiniJ
P.s. svo var það þetta með skarfana.
________________________________________________________, 26.2.2007 kl. 23:24
Ooooo, sniðugur, Steini.
Guðný, umrætt grill er græja til að hafa á matborðinu og gestirnir elda sjálfir. Racklett er ostur sem á að nota svo þetta verði alvöru....
Kv. Fjóla Ásg
________________________________________________________, 27.2.2007 kl. 13:32
Koma svo, hvert er svarið???
________________________________________________________, 28.2.2007 kl. 17:08
Dettur ekki í hug að svara - það er búið að stela glæpnum.
Kv. Fjóla.
PS Guðný, koma með aðra
________________________________________________________, 28.2.2007 kl. 23:32
Óli, hver er það sem
Boðar mönnum messugjörð
mælir daga og stundir.
Vex um heiðar holt og börð,
höfð er pilsum undir ?
Það þýðir ekkert að þykjast vita og svara svo engu!
________________________________________________________, 1.3.2007 kl. 20:28
Það er auðvitað klukkan sem boðar mönnum messugjörð. Ég þekki þetta vel þar sem helv.... klukkurnar í kirkjum í hverfinu mínu eru að gera mig brjálaðan. Þeim er hringt í tíma og ótíma öllum til armæðu. Nú svo mælir blessuð klukkan daga og stundir, bláklukkan vex um heiðar holt og börð og svo þekkja þær sem fæddar eru á fyrri hluta síðustu aldar undirpilsin sem kölluð voru klukkur.
Kv./ÓA
Vissuð þið að það var ekki til rétt klukka á Íslandi fyrr en sæstrengurinn komst í gagnið árið 1906?
________________________________________________________, 2.3.2007 kl. 10:32
Jújújú Óli, hún var til. Éta þegar hungrar, sofa þegar syfjar. Hárrétt..
Hjörleifur.
________________________________________________________, 2.3.2007 kl. 20:18
Oooooog það var rétt!! Bæði þeir Óli og Hjörleifur hafa rétt fyrir sér, líkamsklukkurnar hafa alltaf verið til staðar og örugglega réttar - bara mismunandi stilltar hjá hverjum og einum
Næsta vísa - skora á ykkur að vera á undan Stóróla að svara!!
Ég og funi fylgjast að
forðum oft mér sveiflað var
með Guði oft ég geng um hlað
Geymist og nafn á högna þar
Og gettu nú! Það má svara strax mín vegna.... ;)
Kv. GSÓ
________________________________________________________, 3.3.2007 kl. 09:55
Þetta er að sjálfsögðu BRANDUR.
Kv. SteiniJ
________________________________________________________, 4.3.2007 kl. 01:02
Og......(trommusóló).........Þorsteinn Jónasson, Stykkishólmi hafði rétt fyrir sér!!
Næsta vísa:
Konunafnið stundum stytt
Staurar uppi bera
Lögð í sjó á miðin mitt
Mun í bókum vera
Koma svo!
________________________________________________________, 4.3.2007 kl. 01:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.