19.12.2010 | 23:39
Jú, það er kominn tími á nýja færslu...
Sæl verið þið.
Hér eru allir nokkuð hressir. Börnin eru að vísu á taugum út af jólasveinum, en þannig á það að vera. Ég er búin að fá mér jólakjól og kaupa sokka á eiginmanninn. Aumingja jólakötturinn verður að leita annað þessi jólin.
Sömuleiðis er ég búin að kaupa hamborgarhrygginn. Ég fékk ekki hljómgrunn fyrir tilbreytingu með jólamatinn þessi jólin frekar en hin jólin sem ég stakk upp á á úthýsa svíninu. Svínið fær félagsskap af léttreyktum lambahrygg, sem ég held endilega að sé betri. Húsavíkurhangikjöt, endur og nautalundir bíða ,,á kantinum".
Hér með lýkur þessari nýju færslu.
Kær kveðja, Fjóla Ásg.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Kæri jólasveinn.
Ég þakka þér kærlega fyrir að senda mér iðnaðarmennina í byrjun nóvember. Þú lofaðir mér að þeir yrðu fljótir en tveir mánuðir er eiginlega of mikið af því góða. Þeir virðast ekkert vera á förum. Klósettið er ennþá frammi á gangi og við förum í bað í eldhúsvaskinum. Ég klofast yfir verkfæri, sementspoka og málningardollur og það er allt í skít. Gestir eru farnir að þurrka af sér þegar þeir fara út og dásama hversu tröppurnar séu hreinar. Annar iðnaðarmaðurinn er orðinn fastagestur í kvöldmat og hann spurði mig um daginn hvað væri í matinn á aðfangadag. Ég þarf sennilega að kaupa aðra flösku af rauðvíni. Ég setti nafnið hans fyrir ofan bréfalúguna; Óli, Sigrún, Skúli, Ýmir og Ívar. Í gær var hringt í mig og spurt um Ívar. Ég sagði: "Nei, það býr enginn Ívar hér", en mundi svo allt í einu eftir iðnaðarmanninum. Auðvitað, hann er búinn að flytja símann sinn í Akraselið, næst verður það lögheimilið. Ætli það sé ekki best að ég ættleiði hann. Það er bara allt í lagi því þá ég fæ sennilega barnabætur með honum við næstu álagningu. Það verði sama upphæð og ég fæ með Ými, eða 2.730 kr. Ég beygi mig eftir lægri upphæð en þessari, það telur allt þegar það þarf að halda uppi iðnaðarmanni og einni pólskri fjölskyldu.
Elsku Jólasveinn. Eitt fatlað svín, þrjár fjúgandi gæsir, fimm syngjandi dvergar, sjö dansandi súlumeyjar, níu nunnur í trans, tíu manna blandaður kór frá heyrnleysingjahælinu, tólf rangeygðir rakarar og fimmtán skeggjaðar Króatískar kellingar voru mjög góðar sendingar. En tveir iðnaðarmenn, þar af annar Pólverji með þrjár konur, átta börn, tvær tengdamæður og þrjár mállausar mágkonur á framfæri, er eiginlega of mikið. Ég bið þig um að ná í þá aftur strax á morgun. Annars verða engin jól hjá okkur í Akraselinu.
Bless elsku jólasveinn,
Óli Ara.
________________________________________________________, 22.12.2010 kl. 01:10
Þetta var akkúrat það sem mig vantaði núna, hehehehe - Óli, vona samt að þér verði einhverntíma skemmt yfir þessu.
Bestu kveðjur, Fjóla Ásg;)
________________________________________________________, 23.12.2010 kl. 10:02
ahahah... Óli - þetta er fyndið.. líklega samt ekki fyndið að búa við þetta iðnaðarmannaástand. Vonandi er því lokið.
kv. Magga Ásg. Konfektuð og hangin...
Magga (IP-tala skráð) 29.12.2010 kl. 15:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.