3.12.2010 | 09:13
Er ekki kominn tími á nýja færslu?
Mér finnst það allavega.
Norðurlandsdeildin er búin að gera laufabrauð, Guðný og Dagný tóku fullt af myndum og ég veit að þær koma til með að setja þær hér inn. Gunna er orðin sjötug, Guðný er orðin fimmtug, Sindri Már og Stefán Bjartur orðnir 22. ára - allt að gerast!!
Á Dalvík verður jólalegra og jólalegra með hverjum deginum sem líður. Þrastarhóll er með sína 20 ljósa seríu og húsbóndanum þar þykir það nóg og stefnir ekki á að setja upp stærri seríu. Hann fullyrðir að restinni af famelíunni sé greinilega alveg sama þó svo að hann myndi örkumlast við að hengja upp seríur (því að af sjálsögðu myndi hann detta niður úr stiga ef hann færi uppí hann) bara ef að þær komast upp. Meiri dramatíkin í honum.... það er svo gott sjúkrahús á Akureyri og þeir eru vanir að gera við hann svo grær hann alltaf svo vel þessi elska. Þeir segja það meira að segja læknarnir.
Svo óska ég ykkur ánægjuríkrar aðventu - þetta er svo yndislegur tími. Enda þetta með textabroti frá Baggalút "gefðu mér jólaknús, vertu nú knúsfús"...
Kv. Magga Ásgeirsd.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Áttum unaðslega kvöldstund með hluta Norðurlandsdeildarinnar í "mini" afmælisveislu í gærkvöldi. Stebbi og Inga fengu að fylgjast með úr fjarlægð. Tvíreykt hangiket og einreykt hrefna með piparrót, feta og bláberjasósu a la Óli Gústa í forrétt, fyllt lambalæri af grillinu a la Siggi Jörgen, borið fram með ofnbökuðu rótargrænmeti og ýmsu meðlæti í aðalrétt og Grýlukaffi, konfekt og eðalveigar á eftir.
Aðventan fer sem sagt afar vel af stað í Ásveginum, allt að gerast þrátt fyrir undanfarið annríki húsmóður, stefnir í hátíð- og notalegan tíma framundan. Hjónakornin misstu sig aðeins í ljósaskreytingum að vanda, við verðum að sjá um þetta fyrir Atla greyið sem virðist alltaf vera kominn með eitthvað óþol eftir að hafa hamast í seríunum hjá Samherja fyrir byrjun aðventu. Reynar er Magga hætt í jólaskreytingadómnefnd hjá bænum, þannig að kannski fer Atli loksins að fá verðlaun fyrir seríuna sína?
Aðventuknús úr Ásveginum,
Guðný.
________________________________________________________, 4.12.2010 kl. 11:32
Hér á bæ eru komnar inniseríur í glugga. Búið að setja saman piparkökuhús og farið að hugsa fyrir fleiru. Eldri barnabörnin, tvö, voru hér síðustu viku á meðan foreldrarnir voru að frílista sig í útlöndum. Yngsti stubburinn er svo að koma í gistingu í kvöld. Það verður gaman að því - hann byrjaði nefnilega að labba fyrir alvöru í gær og er frekar ,,rúskinn":)
Ekki meira að sinni - hugsaði bara að lítið er betra en ekki neitt...
Kærar kveðjur, Fjóla Ásg
________________________________________________________, 4.12.2010 kl. 13:18
Fuuuuulllt af myndum í nýju albúmi!!
Guðný.
________________________________________________________, 4.12.2010 kl. 14:48
Í Akraselinu fer frekar lítið fyrir jólaundirbúningi þar sem heimilið er á hvolfi þessa dagana vegna framkvæmda á baðherberginu. Upphaflega átti þetta að vera nett yfirhalning (rífa sveppamengaðan panil úr lofti) en núna höfum við verið þrjár vikur með algjörlega galtómt baðherbergi (engin hreinlætistæki, engar innréttingar, engar flísar og ekkert gólf), strípaða og sundurhoggna veggi og gólf og málin hafa bara versnað ef eitthvað er. Búið er að skipta um eitthvað af rörum og m.a.s. var borað alveg ofan í grunn til að skipta um ónýtar lagnir sem sáust á "Youtube".
Þessu múrbroti fylgir náttúrulega þvílíkt magn af steinsteypuryki og alls kyns óþverra sem smýgur inn í öll skúmaskot um allt hús, þrátt fyrir ýmsar varúðarráðstafanir í upphafi aðgerða. Til marks um svínaríið höfum ekki enn tekið upp úr töskunum frá Boston-ferðinni, þær liggja bara innsiglaðar á stofugólfinu og bíða betri tíma (það klárast þá ekki fríhafnarnammið á meðan).
Gefum þessu tíu daga í viðbót og ef ekki verður orðið "sleppifært" á baðherginu eftir þann tíma neyðumst við líkleag til að hringja í rústabjörgunarsveitina.
________________________________________________________, 8.12.2010 kl. 00:36
Elsku Akraselir. Mikið getið þið verið glöð þegar þetta er búið og nýja og fína baðherbergið fullbúið
Maður verður nefnilega alltaf að horfa á bjartari hliðina
Baráttukveðjur frá Guju frænku.
________________________________________________________, 10.12.2010 kl. 11:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.